Nýliðar Stjörnunnar gerðu sér lítið fyrir og lögðu Njarðvíkinga, 87:79, í Iceland Express-deild karla í körfuknattleik í Ásgarði í kvöld. Þrír aðrir leikir voru í kvöld. Grindavík vann góðan útisigur á Skallagrími, Þór lagði Hamar í Hveragerði og Snæfell hrósaði sigri gegn Tindastóli á Sauðarkróki.
Stjarnan hafði yfir allan tímann gegn Njarðvík í kvöld og var sigur Garðbæinga sanngjarn, 87:79, en Stjarnan hafði einnig betur í fyrri rimmu liðanna í Njarðvík. Dimitar Karadzovski skoraði 26 stig fyrir Stjörnuna og nýr liðsmaður Garðbæinga Jarrette Stephens skoraði 20. Hjá Njarðvík var Damon Baily atkvæðamestur með 22 stig og næstur kom Jóhann Ólafsson með 18 stig.
Á Sauðárkróki töpuðu heimamenn í Tindastóli fyrir Snæfelli, 87:71, en Snæfellingar hafa verið í miklu stuði að undanförnu. Joshua Buettner skoraði 19 stig fyrir Tindastól og þeir Svavar Birgisson og Philip Perre 15 stig hver. Justin Shouse var atkvæðamestur hjá Snæfelli með 17 stig og þeir Hlynur Bæringsson og Sigurður Þorvaldsson gerðu 16 stig hver.
Þórsarar gerðu góða ferð til Hveragerðis þar sem þeir lögðu Hamarsmenn, 93:89.
Í Borgarnesi fögnuðu Grindvíkingar góðum sigri á Skallagrím, 95:88. Með sigrinum komust Grindvíkingar upp að hlið KR-inga í annað sæti deildarinnar. Bæði lið hafa 26 stig en Keflavík trónir á toppnum með 28 stig. Annað kvöld tekur KR á móti Keflavík í toppslag deildarinnar.