Úrslitaleikir Lýsingarbikarsins í körfuknattleik verða á sunnudaginn í Laugardalshöllinni og búast má við miklu fjöri í Höllinni enda tveir stærstu leikir ársins í körfunni. Í kvennaflokki mætast Grindavík og Haukar og í karlaflokki Fjölnir og Snæfell. Haukar eru bikarmeistarar kvenna en ekkert hinna félaganna þriggja hefur orðið bikarmeistari.
Haukar eru núverandi bikarmeistarar kvenna og hafa fjórum sinnum hampað bikarnum, fyrst árið 1984. Grindvíkingar hafa hins vegar aldrei orðið bikarmeistarar í kvennaflokki, en hafa fjórum sinnum leikið til úrslita og alltaf tapað. Liðið tapaði meðal annars fyrir Haukum 2005.
„Við höfum haft betur í viðureignum okkar við Hauka í vetur, en það er hins vegar ekki spurt að því þegar komið er í úrslit bikarsins. Það er bara einn leikur – eitt tækifæri sem liðið fær. Haukar eru meistarar og þótt liðið sé ungt og hafi misst góða leikmenn frá því í fyrra hefur liðið verið að sækja í sig veðrið eftir því sem liðið hefur á veturinn,“ sagði Igor Beljanski þjálfari kvennaliðs Grindavíkur á blaðamannafundi í vikunni.
Þá var hann á leið með lið sitt að mæta Keflvíkingum og sagði að undirbúningurinn hæfist strax að þeim leik loknum. „En auðvitað er ég búinn að hugsa mikið um leikinn alveg frá því við unnum Keflavík í unanúrslitum í byrjun febrúar. Ég hef hins vegar reynt að láta stelpurnar ekki hugsa um leikinn,“ sagði Beljanski sem sagði alla sína leikmenn heila og tilbúna í leikinn.
Spurður um hvað liðið þyrfti að gera til að sigra Hauka sagði hann: „Ég ætla ekki að segja þér það – þú verður bara að sjá það í Höllinni á sunnudaginn, en við mætum þar til að vinna. En það er ljóst að við verðum að vera sterkar í fráköstum.“
Haukar hafa verið á fínni siglingu upp á síðkastið, en telur þjálfarinn að ungt lið hans sé tilbúið. „Eigum við ekki að segja að það sé hálf vika í að þær springi endanlega út? Ef við náum að landa bikarnum þá toppum við ef til vill á réttum tíma, en mikið vill meira og við ætlum okkur líka að ná langt í úrslitakeppninni.
Við verðum að leggja áherslu á fráköstin og ná yfirburðastöðu þar og það er ekki óraunhæft miðað við stærð leikmanna. Við þurfum líka að loka á skyttur þeirra og það er alls ekki ómögulegt þó svo að Grindvíkingar séu með margar byssur. Fyrst og fremst þurfum við auðvitað að halda Tiffany Roberson niðri.
Á móti Grindavík er ekki endilega hentugt fyrir okkur að spila hratt, en við getum spilað hratt ef við viljum það. En það lið sem nær að stjórna stendur oftast upp sem sigurvegari,“ sagði Yngvi.
Liðin mætast í deildinni á fimmtudaginn kemur og oft vill það vera svo þegar þannig hittist á að liðin vinna hvort sinn leikinn. „Við ætlum að vinna þá báða, en ég væri svo sem til í að semja um að vinna bikarleikinn og tapa hinum og gefa Fjölni þar með tækifæri í deildinni,“ sagði Hlynur glettinn.
Bárður Eyþórsson, þjálfari Fjölnis, er öllum hnútum kunnugur í Hólminum, en Hlynur segir það ekki skipta nokkru máli. „Það þekkja allir alla í körfubolta á Íslandi. Við þurfum ekki að gera eitthvað á sunnudaginn sem við kunnum ekki. Við þurfum að spila eins og við getum og ekkert meira en það. Við þurfum ekki tíu hetjur sem allar ætla að eiga daginn og bjarga heiminum. Við verðum að halda haus og rúlla í gegnum okkar hluti.
Það verður fámennt á Snæfellsnesinu á sunnudaginn, ekki þannig að skilja að þar sé mikið fjölmenni, en það er mikil stemmning fyrir leiknum,“ sagði Hlynur.
Fjölnismenn ætla að fjölmenna á leikinn og sagði Hjalti að mikil hátíð yrði í Íþróttamiðstöðinni fyrir leikinn þar sem „troðari“ landsins, Grindvíkingurinn Ólafur Ólafsson, myndi mæta og farið væri í ýmsa leiki auk þess sem bærinn yrði málaður gulur áður en langferðabílar flytja fólk að Laugardalshöll.