Grindvíkingar hafa látið Jonathan Griffin fara og samið þess í stað við Jamaal Williams sem síðustu tvö ár sín í háskólaboltanum lék með Washington Huskies.
Á heimasíðu Grindvíkinga segir að ástæðan sé ekki léleg frammistaða Griffins heldur sú staðreynd að eftir að Helgi Jónas Guðfinnsson kom til leiks á nýjan leik hafi staða mála breyst.
Griffin hefur verið einn besti leikmaður Grindvíkinga í vetur, gert rúm 23 stig að meðaltali í leik og er stigahæstur leikmanna liðsins. Hann er einnig sá leikmaður sem hefur tekið flest fráköst í liðinu.
Nýi maðurinn hefur leikið í efstu deild í Frakklandi og Argentínu og vænta Grindvíkingar mikils af honum.