KR sigraði Grindavík, 83:69, í oddaleik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í körfuknattleik sem fram fór í Vesturbænum í kvöld. KR mætir því Keflavík í úrslitaeinvígi um Íslandsmeistaratitilinn.
Grindavík var yfir eftir fyrsta leikhluta, 16:12, en KR sneri blaðinu við í öðrum leikhluta og náði sjö stiga forystu fyrir hálfleik, 40:33. Eftir þriðja leikhluta var staðan síðan 59:54, KR í hag. Þegar fjórar mínútur voru eftir hafði KR náð 17 stiga forystu, 77:60, og úrslitin voru ráðin.
Candace Futrell skoraði 26 stig fyrir KR, Sigrún Ámundadóttir 23 og Hildur Sigurðardóttir 18. Tiffany Roberson skoraði 30 stig fyrir Grindavík, Ólöf H. Pálsdóttir 15 og Joanna Skiba 13.
Nánar verður fjallað um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins á morgun, með viðtölum og myndum.