Friðrik Stefánsson, fyrirliði Njarðvíkinga, verður ekki með liði sinu í úrslitakeppni Iceland Express deildar karla sem hefst á föstudaginn. Friðrik var frá keppni um tíma í haust vegna óreglulegs hjartsláttar og hefur hann verið verri síðustu daga og sagði Teitur Örlygsson þjálfari liðsins að hann yrði ekki með í úrslitakeppninni.
Annars eru leikmenn liðanna átta almennt í fínu standi fyrir komandi átök nema hvað Skallagrímsmaðurinn Hafþór Gunnarsson verður ekki meira með liðinu eftir að hann sleit krossband í hné.
Keppnin hefst á föstudag með leikjum Keflavíkur og Þórs annars vegar og hins vegar Grindavíkur og Skallagríms. Á laugardaginn leika síðan KR og ÍR annars vegar og Njarðvík og Snæfell hins vegar.
Þau lið sem fyrr sigra í tveimur leikjum kemst í undanúrslit en þar þarf að sigra í þremur leikjum til að komast í úrslitin.