ÍR lagði Íslandsmeistarana - Snæfell vann í Ljónagryfjunni

Hreggviður Magnússon sem hér sækir að körfu KR og félagar …
Hreggviður Magnússon sem hér sækir að körfu KR og félagar hans í ÍR unnu góðan sigur á KR í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Útiliðin fögnuðu bæði sigrum í úrslitakeppni Iceland Express-deildarinnar í körfuknattleik í dag. ÍR-ingar gerðu góða ferð í vesturbæinn þar sem þeir lögðu Íslandsmeistara KR-inga, 85:76, og í Njarðvík höfðu Snæfellingar betur gegn heimamönnum 81:74. Snæfell og ÍR geta því tryggt sér sæti í undanúrslitum með sigri í næsta leik.

KR - ÍR 76:85 

ÍR náði yfirhöndinni gegn Íslandsmeistaraliði KR strax í fyrri hálfleik og 11 stig skildu liðin að í hálfleik þar sem ÍR var yfir, 48:37. KR náði að minnka muninn í fjögur stig í upphafi þriðja leikhluta, 48:44, en ÍR gaf ekkert eftir á lokakaflanum og landaði sigri. Liðin áttust einnig við í 8-liða úrslitunum í fyrra og þar sigraði ÍR í fyrsta leiknum á heimavelli KR en KR náði að vinna tvo leiki í röð og tryggja sér sæti í undanúrslitum. 

Josuha Helm skoraði 22 stig fyrir KR, Andrew Fogel 17 og Jeremiah Sola 11. Tahirou Sani og Nate Brown voru með 17 stig hvor fyrir ÍR og Steinar Arason 16.

Liðin eigast við að nýju á heimavelli ÍR á mánudag. 

Njarðvík - Snæfell 71:84

Snæfell sýndi styrk í vörn sem sókn gegn Njarðvíkingum á útivelli í dag. Stykkishólmsliðið lék gríðarlega vel þegar mest á reyndi í síðari hálfleiknum og var sigur liðsins aldrei í hættu.  Athygli vakti að Brenton Birmingham leikmaður Njarðvíkur skoraði aðeins 6 stig í leiknum en hann náði ekki að skora þriggja stiga körfu í leiknum í sjö tilraunum.

Damon Bailey skoraði 29 stig fyrir Njarðvíkinga og Jóhann Ólafsson kom næstur með 14. Hjá bikarmeisturum Snæfells var Justin Shouse atkvæðamestur með 20 stig, Slobodan Subasic skoraði 19, og Ingvaldur Magni Hafsteinsson 13.

Liðin eigast við að nýju í Stykkishólmi á mánudag.

Átta liða úrslitin halda áfram á morgun þar sem að Skallagrímur tekur á móti Grindavík en þar er Grindavík yfir, 1:0. Keflavík leikur gegn Þór á Akureyri og með sigri getur Keflavík tryggt sér sigur í einvíginu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert