Tveir leikir í úrslitakeppninni í dag

Frá viðureign KR og ÍR en Reykjavíkurliðin eigst við í …
Frá viðureign KR og ÍR en Reykjavíkurliðin eigst við í DHL-höllinni í dag. mbl.is

Tveir leikir fara fram í fyrstu umferð úrslitakeppni Iceland Express-deildar karla í körfuknattleik í dag. Í DHL-höllinni í vesturbænum mætast Reykjavíkurliðin KR og ÍR og í Stykkishólmi eigast við bikarmeistarar Snæfells og Njarðvík. Báðir leikirnir hefjast klukkan 16.

KR og ÍR áttust einnig við í 8 liða úrslitunum á síðustu leiktíð þar sem KR hafði betur, 2:1, eftir að ÍR-ingar höfðu unnið fyrsta leikinn sem fram fór í DHL-höllinni. KR-ingar eru sigurstranglegri í þessu einvígi en vesturbæjarliðið á sem kunnugt er Íslandsmeistaratitil að verja.

Reiknað er með hörkuspennandi einvígi hjá Snæfell og Njarðvík en Njarðvíkingar komust alla leið í úrslit á síðustu leiktíð þar sem þeir töpuðu fyrir KR-ingum í mögnuðu einvígi. Það er skarð fyrir skildi hjá suðurnesjaliðinu að Friðrik Stefánsson getur ekki tekið þátt í úrslitakeppninni vegna veikinda en Njarðvíkingar munu eflaust þjappa sér saman og berjast sem einn maður gegn sterku liði Snæfells, sem margir spá að fari alla leið og vinni titilinn í fyrsta sinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert