Annar leikur Snæfells og Grindavíkur

Justin Shouse og félagar í Snæfelli fá tækifæri til að …
Justin Shouse og félagar í Snæfelli fá tækifæri til að komast í 2:0 í kvöld. mbl.is/Golli

Snæfell og Grindavík mætast í kvöld öðru sinni í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik og verður flautað til leiks í íþróttamiðstöðinni í Stykkishólmi klukkan 19.15.

Snæfellingar gerðu góða ferð suður til Grindavíkur á mánudagskvöldið og unnu þar fyrstu viðureign liðanna, 97:94, eftir að hafa verið undir lengi vel. Þeir fá því gullið tækifæri í kvöld til þess að ná 2:0 forystu í einvíginu en þrjá sigurleiki þarf til að komast í úrslitin.

Snæfell endaði í fimmta sæti úrvalsdeildarinnar í vetur en Grindavík í því þriðja. Snæfell vann samt báðar viðureignir liðanna í deildinni, 95:82 í Grindavík og 75:72 í Stykkishólmi, og er að því leyti með undirtökin í baráttu liðanna á þessu keppnistímabili.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka