Snæfell lagði Grindavík 79:71 í Stykkishólmi í kvöld í undanúrslitum Iceland Express deildar karla í körfuknattleik. Snæfell er 2:0 fyrir í rimmunni en það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki kemst í úrslit en næsti leikur fer fram á laugardag í Grindavík. Hlynur Bæringsson skoraði 20 stig fyrir Snæfell og tók að auki 21 frákast. Fylgst var með gangi mála á mbl.is.
20:40 Snæfell - Grindavík 79:71 (4. leikhluta er lokið).
Snæfell getur komist í úrslit Íslandsmótsins í þriðja sinn í sögu félagsins með sigri í þriðja leiknum sem fram fer í Grindavík á laugardag.
20:28 Það eru 5 mínútur eftir af leiknum. Staðan er 69:63 fyrir Snæfell. Williams er mættur til leiks á ný, ekkert að honum. Varamenn Grindavíkur eru niðurlútir og virðast ekki hafa trú á sínu liði. Staðan er 72:65 fyrir Snæfell.
20:21 Það eru 2 mínútur liðnar af 4. leikhluta og Grindvíkingar hafa minnkað muninn. Staðan er 67:59. Jamaal Williams miðherji Grindavíkur fer meiddur af velli en ekki vitar hvort meiðsli hans eru alvarleg.
20:17 Snæfell - Grindavík 64:54 (3. leikhluta er lokið).
20:15 Hlynur Bæringsson hefur tekið 18 fráköst fyrir Snæfell og skorað 16 stig. Páll Axel Vilbergsson er stigahæstur í liði Grindavíkur með 13 stig.
20:12 Grindavík leikur svæðisvörn en það gengur ekki upp þar sem að Snæfell raðar niður langskotunum. Staðan er 56:48 fyrir Snæfell þegar 3 mínútur eru eftir af 3. leikhluta. Snæfell hefur skorað 24 stig gegn 11 á þessum kafla.
20:08 Snæfell hefur náð 2 stiga forskoti, 46:44, og er þetta í fyrsta sinn sem liðið kemst yfir.
20:05 Síðari hálfleikur er byrjaður. Það eru liðnar 2 mínútur og Grindavík er með 2 stiga forskot, 39:37.
19:57 Aðeins fimm leikmenn úr Snæfells hafa skorað í fyrri hálfleik og sex leikmenn úr Grindavíkurliðinu náðu að skora.
19:53 Friðrik Ragnarsson þurfti ekki langan tíma til þess að ræða við sína menn í hálfleik. Grindavíkurliðið er mætt út á völl aftur til þess að hita upp yfir síðari hálfleikinn.
19:49 Snæfell - Grindavík 35:37 (2. leikhluta er lokið)
Hlynur Bæringsson er stigahæsti leikmaður Snæfells með 10 stig og 11 fráköst. Adam Darboe er stigahæstur í liði Grindavíkur með 11 stig. Snæfell náði að laga sóknarleikinn þegar leið á 2. leikhluta og þar munaði mestu um að Justin Shouse náði að hrista Þorleif af sér í vörninni.
19:44 Friðrik Ragnarsson þjálfari Grindavíkur tekur leikhlé. Lærisveinar hans hafa aðeins gefið eftir á undanförnum mínútum en það munar 6 stigum á liðunum, 35:29, og 1:33 mín eftir af fyrri hálfleik.
19:41 Það eru 2:33 mín eftir af 2. leikhluta. Sigurður Þorvaldsson var að skora úr tveimur vítaskotum fyrir Snæfell og er staðan 33:29.
19:36 Snæfell leikur maður á mann vörn að nýju. Staðan er 31:22 þegar 4 mínútur eru eftir af 2. leikhluta.
19:33 Kotila þjálfari Snæfells tekur leikhlé. Það er ekkert að ganga upp í sóknarleik liðsins og Grindvíkingar leika vörnina af mikilli ákefð. Staðan er 31:19 fyrir Grindavík og 5:29 mín eftir af 2. leikhluta.
19:32 Iceland Express "hringlið" heppnaðist ekki hjá þeim sem fékk tækifæri til þess að vinna sér inn flugmiða til Evrópu.
19:28 Það eru 2 mínútur liðnar af 2. leikhluta. Staðan er 27:17 fyrir Grindavík. Kotila þjálfari Snæfells skiptir ört um leikmenn og virðist eiga erfitt með að finna út hvað er að hjá liðinu.
19:20 Snæfell - Grindavík 14:25 (1. leikhluta er lokið)
Sóknarleikur Grindavíkur er þeirra sterkasta vopn það sem af er leiksins. Hlynur Bæringsson er stigahæstur leikmanna Snæfell með 6 stig en Adam Darboe skoraði 9 stig fyrir Grindavík í fyrsta leikhluta. Hlynur tók9 fráköst í fyrsta leikhluta en allt Grindavíkurliðið tók 7 fráköst.
19:19 Friðrik Ragnarsson þjálfari Grindavíkur tekur Jamaal Williams útaf og fer yfir málin með bandaríska leikmanninum. Hann hefur ekki náð að stöðva Hlyn Bæringsson sem hefur tekið 8 fráköst á fyrstu 7 mínútum leiksins. Staðan er 21:14 fyrir Grindavík og 2:49 mínútur eftir af fyrsta leikhluta.
19:17 Snæfell breytir um varnaraðferð til þess að stöðva langskot Grindavíkur. Geof Kotila þjálfari liðsins lætur sína menn leika svæðisvörn. Staðan er 17:12.
19:15 Sóknarleikur Grindavíkur er frábær og liðið hefur skorað 17 stig á fyrstu 4 mínútum leiksins. 17:9 er staðan.
19:13 Grindavík byrjar leikinn af krafti. Staðan er 9:2 þegar 3 mínútur eru liðnar af leiknum. Þorleifur Ólafsson leikur vörnina framarlega á Justin Shouse leikstjórnanda Snæfells. Þorleifur á greinilega að riðla sóknarleik heimamanna.
Kristinn Óskarsson og Eggert Þór Aðalsteinsson eru dómarar leiksins. Það er þéttsetinn bekkurinn í íþróttahúsinu í Stykkishólmi og mikil stemmning á meðal áhorfenda.