„Ég hef verið þjálfari í 26 ár og tekið þátt í 18 eða 19 úrslitaleikjum um titla. Þessi leikur er sá ótrúlegasti sem ég hef tekið þátt í og ég veit eiginlega ekki hvernig á að lýsa því hvernig mér leið í leikslok. Það er ekki hægt,“ sagði Geof Kotila, þjálfari Snæfells, eftir 116:114-sigur liðsins gegn Grindavík í gær í undanúrslitum Iceland Express deildar karla í körfuknattleik.
Snæfell er því komið í úrslit Íslandsmótsins eftir 3:1-sigur gegn Grindavík og er þetta í þriðja sinn í sögu félagsins sem það gerist.
Kotila viðurkenndi að hann hefði frekar viljað sjá lægra stigaskor hjá sínu liði og betri varnarleik. „Það fór allt ofan í hjá báðum liðum og við því er ekkert að gera. Við sýndum hugrekki þegar mest á reyndi og ég er stoltur af mínu liði. Grindavík spilaði frábæran körfubolta og það voru einstaklingar í þeirra liði sem hafa líklega aldrei leikið betur á ferlinum.“
Kotila sagði hann hafi ekki verið viss um sína stöðu í desember þegar ekkert gekk hjá liðinu en frá þeim tíma hefur liðið unnið tvo bikarmeistaratitla og tryggði sér sæti í úrslitum Íslandsmótsins.
„Ég er ekki að fara skrifa undir 5 ára samning við Snæfell núna á eftir og við munum ræða um framhaldið síðar. Það gekk ekkert upp í byrjun tímabilsins og ég átti alveg eins von á því að þurfa að fara heim til Danmerkur á þeim tíma. Það sem hefur breyst hjá okkur er að varnarleikurinn er betri og við tókum meðvitaða ákvörðun um að verða betri.“
Sjá ítarlega umfjöllun um leik Snæfells og Grindavíkur í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.