Það þurfti tvær framlengingar til að útkljá magnaða rimmu San Antonio Spurs og Phoenix Suns í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt. San Antonio náði loks að knýja fram sigur á sínum heimavelli, 117:115.
Staðan var 93:93 eftir venjulegan leiktíma og 104:104 eftir fyrri framlenginguna.
Tim Duncan átti frábæran leik með San Antonio. Hann skoraði 40 stig og tók 15 fráköst, og bjargaði liði sínu í fyrri framlengingunni þegar hann jafnaði metin með þriggja stiga skoti. Það var svo Manu Ginobili sem skoraði sigurkörfuna þegar 1,8 sekúnda var eftir af seinni framlengingunni. Ginobili skoraði 24 stig og Tony Parker 26.
Phoenix var yfir mestallan leikinn, náði mest 16 stiga forystu, en San Antonio komst yfir í fyrsta sinn í fjórða leikhluta. Amare Stoudamire skoraði 33 stig fyrir Phoenix og Steve Nash gerði 25 stig og átti 13 stoðsendingar.
Utah lagði Houston á útivelli, 93:82, og náði með því undirtökunum í því einvígi. Andrei Kirilenko gerði 21 stig fyrir Utah og þeir Carlos Boozer og Deron Williams 20 stig hvor. Shane Battier var með 22 stig fyrir Houston og Tracy McGrady 20.
Cleveland vann Washington á heimavelli, 93:86. LeBron James skoraði 32 stig fyrir Cleveland og Zydrunas Ilgauskas 22 en Gilbert Arenas var með 24 stig fyrir Washington og Antawn Jamison 23.
Loks vann New Orleans sigur á Dallas, 104:92. Chris Paul gerði 35 stig fyrir New Orleans og David West 23 en Dirk Nowitzki var með 31 stig fyrir Dallas og Josh Howard 17.
Hinir fjórir leikirnir í fyrstu umferð úrslitakeppninnar fara fram seint í kvöld.