Keflavík er Íslandsmeistari í körfuknattleik karla árið 2008 og er þetta 9. titill félagsins frá árinu 1989 þegar Keflavík varð fyrst Íslandsmeistari. Keflavík sýndi styrk sinn í síðari hálfleik í kvöld með 98:74-sigri í þriðja leiknum gegn Snæfelli úr Stykkishólmi og lauk úrslitarimmunni 3:0. Þetta er í 5. sinn sem Sigurður Ingimundarson stýrir Keflavíkurliðinu til sigurs á Íslandsmótinu sem þjálfari. Fylgst var með gangi mála á mbl.is.
Leiknum er lokið, 98:74, fyrir Keflavík.
Ítarleg umfjöllun og viðtöl við leikmenn og þjálfara verður í íþróttablaði Morgunblaðsins á morgun.
20:58 Keflavík gefur ekkert eftir. Það er 1 mínúta eftir og staðan er 95:71.
20:48 Keflavík eykur enn forskotið. Staðan er 81:61 og 5 mínútur eru eftir. Íslandsmótinu í körfubolta er að ljúka og Keflvíkingar eru þegar farnir að fagna Íslandsmeistaratitlinum- í áhorfendastúkunni.
20:45 Hlynur Bæringsson leikur ekki meira með Snæfellsliðinu í þessum leik. Hlynur fékk dæmda á sig tæknivillu eftir að hann braut á Anthony Susnjara. Staðan er 72:59 fyrir Keflavík og 5:53 eftir af leiknum.
20:37 Justin Shouse var að fá sína 5. villu og kemur ekki meira við sögu í liði Snæfells. Það eru 8 mínútur eftir af leiknum og ljóst að sóknarleikur Snæfells mun ekki lagast mikið úr þessu eftir að Shouse fór útaf. Staðan er 70:56 fyrir Keflavík. Shouse skoraði 7 stig, tók 8 fráköst og gaf 6 stoðsendingar.
Keflavík - Snæfell 69:54 (3. leikhluta er lokið).
Það bendir allt til þess að Keflavík fagni 9. Íslandsmeistaratitlinum í sögu mfl. karla. Snæfellsliðið er ekki með neinar lausnir í sóknarleiknum og útlitið er dökkt hjá liðinu. Tommy Johnson skoraði síðustu stig 3. leikhluta með þrigga stiga körfu og Keflavík vann 3. leikhlutann, 27:18. Hann er stigahæstur í liði Keflavíkur með 17 stig.
20:27 Snæfell leikur svæðisvörn og Keflavík svarar með því að skora þriggja stiga körfu. Staðan er 61:51 fyrir Keflavík og 1:30 eftir af 3. leikhluta.
20:24 Snæfell tekur leikhlé. Staðan er 58:47 fyrir Keflavík og 3:05 eftir af 3. leikhluta. Keflavík hefur skorað 12 stig gegn 2 síðustu mínútum leiksins.
20:20 Gunnar Einarsson er að hitna og skoraði hann þriggja stiga körfu eftir góða rispu frá Snæfellsliðinu. Gunnar stal síðan boltanum af Hlyni Bæringssyni og BA Walker skoraði. Staðan 53:47 fyrir Keflavík og 5 mínútur eftir af 3. leikhluta.
20:17 Snæfell byrjar vel í síðari hálfleik. Anthony Susnjara var að fá 4. villuna í liði Keflavíkur, staðan er 44:42, fyrir Keflavík.
20:15 Það ræðst á næstu 20 mínútunum hvort Íslandsmótinu í körfuknattleik ljúki í Keflavík í kvöld. Keflavík er með 6 stiga forskot, 42:36, og síðari hálfleikur er að byrja.
Keflavík - Snæfell 42:36 (fyrri hálfleik er lokið).
Keflavík er 6 stigum yfir þegar fyrri hálfleik er lokið. Síðasta sókn Snæfells rann út í sandinn áður en liðið náði að koma skoti að körfu. Kotila þjálfari liðsins er ósáttur við margt í leik liðsins en skotnýting liðsins í 2 stiga skotunum er aðeins 37,5% en Keflavík er með 57% skotnýtingu í 2 stiga skotunum. Magnús Gunnarsson er stigahæstur í lið Keflavíkur með 13 stig en Ingvaldur Magni Hafsteinsson er með 9 stig í liði Snæfells. Athygli vekur að hinn smávaxni Justin Shouse er með fleiri fráköst en stig í fyrri hálfleik í liði Snæfells, 4 stig og 6 fráköst.
19:46 Keflavík er 5 stigum yfir, 35:30 og það eru 3:40 eftir af 2. leikhluta. Justin Shouse er ekki búinn að skora fyrir Snæfell en hann er með 5 fráköst. Tommy Johnson og Magnús Gunnarsson eru með 9 stig hvor fyrir Keflavík. Magni Hafsteinsson er með 9 stig í liði Snæfells.
19:39 Geof Kotila þjálfari Snæfells tekur leikhlé. Leikskipulag Snæfells er ekki að ganga upp. 7 mínútur eftir af 2. leikhluta og liðið er ekki búið að skora í 2. leikhluta.
19:35 Magnús byrjar 2. leikhluta eins og hann lauk þeim 1., með þriggja stiga skoti langt utan af velli. Staðan er 26:21 fyrir Keflavík og 8 mín. eftir af 2. leikhluta.
Ágúst Jensson vallarstjóri Korpúlfstaðarvallar gerði sér lítið fyrir og skoraði frá miðju í Iceland Express borgarskotinu. Ágúst vann sér inn ferð til London en hann lék á árum áður með liði Snæfells.
Keflavík - Snæfell 23:21 (1. leikhluta er lokið.)
Magnús Gunnarsson úr liði Keflavíkur skoraði síðustu stigin í 1. leikhluta með þrigga stiga skoti úr „öðru svæðisnúmeri“.
19:26 Ingvaldur Magni Hafsteinsson kemur Snæfell yfir í fyrsta sinn, 16:15, með þriggja stiga körfu. 3:30 eftir af fyrsta leikhluta. Magni er með 7 stig.
19:22 Keflavík er með yfirhöndina þegar 4 mínútur eru liðnar af leiknum, 13:9. Bæði lið leika maður á mann vörn. Snæfell leitar mikið að miðherjunum undir körfunni.
19:18 Það eru 2 mínútur liðnar af leiknum. Staðan er 6:4 fyrir Keflavík.
19:15 Leikurinn er byrjaður: Byrjunarlið Keflavíkur: Gunnar Einarsson, Tommy Johnson, Anthony Susnjara, Jón Nordal Hafsteinsson og BA Walker.
Byjunarlið Snæfells: Hlynur Bæringsson, Justin Shouse, Ingvaldur Magni Hafsteinsson, Sigurður Þorvaldsson, Slobodan Subasic.
19:10: Dómarar leiksins eru Rögnvaldur Hreiðarsson og Björgvin Rúnarsson. Eftirlitsmaður er Pétur Sigurðsson.
18:50 Það er þétt setið í íþróttahúsinu í Keflavík en það var nánast orðið fullt á áhorfendabekkjunum.
Frá því að úrslitakeppnin fór fyrst fram árið 1984 hefur Njarðvík fagnað titlinum 11 sinnum og Keflavík er þar næst í röðinni með 8 titla.
11 Njarðvík (1984, 1985, 1986, 1987, 1991, 1994, 1995, 1998, 2001, 2002, 2006).
8 Keflavík (1989, 1992, 1993, 1997, 1999, 2003, 2004, 2005).
3 KR (1990, 2000, 2007).
1 Haukar (1988).
1 Grindavík (1996).