Los Angeles Lakers tók meistara San Antonio Spurs í kennslustund í öðrum úrslitaleik liðanna í úrslitum Vesturdeildar í NBA í körfuknattleik. Lakers vann með 30 stiga mun, 101:71, og er komið 2:0 yfir í einvígi liðanna.
Kobe Bryant skoraði 22 stig fyrir Lakers og Lamar Odom kom næstur með 20 stig og hann tók 12 fráköst í leiknum sem fram fór á heimavelli Lakers.
Við verðum að bara að leika sama leik á heimavelli Spurs og vinna þar einn eða tvo leiki,“ sagði Odom eftir leikinn en meistararnir hafa unnið 40 leiki á heimavelli á tímabilinu en tapað aðeins 7.
Það verður því á brattann að sækja fyrir SA Spurs en liðið freistar þess í fyrsta sinn í sögu félagsins að verja titilinn en liðið lendi einnig 2:0 undir gegn New Orleans í undanúrslitunum en tókst að knýja fram sigur að lokum.
Það stefndi allt í spennandi leik en Lakers tók góðan sprett undir lok annars leikhluta og hélt honum áfram í byrjun þess þriðja en á þessum kafla skoraði liðið 20 stig gegn aðeins 4. Þegar þriðja leikhluta lauk var staðan, 74:57, eftir að hafa verið jöfn, 37:37, seint í öðrum leikhluta.
Tony Parker var atkvæðamestur hjá SA Spurs með 13 stig og Tim Duncan kom næstur með 12 en hann tók aðeins eitt skot að körfu Lakers í seinni hálfleik.
,,Við erum með gott sjálfstraust enda sterkir á heimavelli en auðvitað er það ansi svekkjandi að koma sér í þá stöðu að lenda 2:0 undir. En við erum staðráðnir í að taka okkur saman í andlitinu og snúa einvíginu okkur í vil,“ sagði Tim Duncan en næstu tveir leikir í einvíginu fara fram á heimavelli Spurs í Salt Lake City.
LA Lakers - SA Spurs 101:71 (2:0)
LA Lakers: Kobe Bryant 22, Lamar Odom 20, Jordan Farmar 14, Derek Fisher 11, Pau Gasol 10, Sasha Vujacic 7, Luke Walton 7, Vladimir Radmanovic 4, Trevor Ariza 2, DJ Mbenga 2, Ronny Turiaf 2.
SA Spurs: Tony Parker 13, Tim Duncan 12, Bruce Bowen 8, Michael Finley 8, Manu Ginobili 7, Ime Udoka 6, Brent Barry 5, Fabricio Oberto 4, Kurt Thomas 4, Jacque Vaughn 4.