Kevin Garnett skoraði 33 stig og Ray Allen var með 29 fyrir Boston Celtics sem sigraði Detroit Pistons 106:102 í úrslitum Austurdeildar NBA-deildarinnar í gær. Með sigrinum náði Boston 3:2-forskoti í rimmunni og þarf liðið aðeins einn sigur til viðbótar til að komast í úrslit NBA-deildarinnar.
Kendrick Perkins var öflugur í liði Boston með 18 stig og 16 fráköst. Paul Pierce hafði heldur hægt um sig og skoraði 16 stig. „Við erum að læra á hverjum einasta degi sem liðsheild. Þetta kvöld var rafmagnað og við erum að leika gegn liði sem hefur verið sterkasta liðið í Austurdeildinni í mörg ár,“ sagði Allen.
Bakverðirnir Chauncey Billups og Richard Hamilton voru stigahæstir í liði Detroit með 26 og25 stig. Flip Saunders þjálfari Detroit sagði að liðið þyrfti að ná fleiri fráköstum til þess að eiga möguleika á sigri.
„Við leikum á okkar heimavelli í sjötta leiknum. Ef við mætum til
leiks með sama hugarfari og í þessum leik þá hef ég ekki miklar áhyggjur. Það eina
sem vantaði var að ná fleiri fráköstum,“ sagði Saunders.
Detroit: Chauncey Billups 26, Richard Hamilton
25, Rasheed Wallace 18, Rodney Stuckey 13, Tayshaun Prince 8, Jason Maxiell 6,
Antonio McDyess 4, Theo Ratliff 2.
Boston: Kevin Garnett 33, Ray Allen 29, Kendrick Perkins 18, Paul Pierce 16, Rajon Rondo 7, James Posey 3.