Boston er skrefi nær lokaúrslitum

Kevin Garnett fagnar með Ray Allen.
Kevin Garnett fagnar með Ray Allen. Reuters

Kevin Garnett skoraði 33 stig og Ray Allen var með 29 fyrir Boston Celtics sem sigraði Detroit Pistons 106:102 í úrslitum Austurdeildar NBA-deildarinnar í gær. Með sigrinum náði Boston 3:2-forskoti í rimmunni og þarf liðið aðeins einn sigur til viðbótar til að komast í úrslit NBA-deildarinnar.

Kendrick Perkins var öflugur í liði Boston með 18 stig og 16 fráköst. Paul Pierce hafði heldur hægt um sig og skoraði 16 stig. „Við erum að læra á hverjum einasta degi sem liðsheild. Þetta kvöld var rafmagnað og við erum að leika gegn liði sem hefur verið sterkasta liðið í Austurdeildinni í mörg ár,“ sagði Allen.  

Bakverðirnir Chauncey Billups og Richard Hamilton voru stigahæstir í liði Detroit með 26 og25 stig. Flip Saunders þjálfari Detroit sagði að liðið þyrfti að ná fleiri fráköstum til þess að eiga möguleika á sigri.

„Við leikum á okkar heimavelli í sjötta leiknum. Ef við mætum til leiks með sama hugarfari og í þessum leik þá hef ég ekki miklar áhyggjur. Það eina sem vantaði var að ná fleiri fráköstum,“ sagði Saunders.

Detroit: Chauncey Billups 26, Richard Hamilton 25, Rasheed Wallace 18, Rodney Stuckey 13, Tayshaun Prince 8, Jason Maxiell 6, Antonio McDyess 4, Theo Ratliff 2.

Boston:  Kevin Garnett 33, Ray Allen 29, Kendrick Perkins 18, Paul Pierce 16, Rajon Rondo 7, James Posey 3.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert