Frækinn sigur Boston

Ray Allen og Kendrick Perkins hjá Boston stöðva Kobe Bryant …
Ray Allen og Kendrick Perkins hjá Boston stöðva Kobe Bryant hjá Lakers í leiknum í nótt. Reuters

Lokaúrslitin í NBA deildinni  í körfuknattleik eru búin sem keppni og nú á aðeins eftir að klára fimmta leik Los Angeles Lakers og Boston Celtics á morgun eftir að Boston gaf Los Angeles raflost í seinni hálfleik í fjórða leik liðanna í nótt. Engin önnur skýring er fyrir algeru afhroði Lakers í leiknum, sem Boston vann 97:91.

Með sigrinum er Celtics nú í 3:1 forystu í leikseríunni og ekkert lið hefur náð að vinna meistartitilinn í sögu lokaúrslitanna eftir að lenda í þeirri stöðu. 

Heimaáhorfendurnir hérna í Staples Center máttu varla trúa sínum eigin augum í fyrri hálfleiknum þegar leikmenn Los Angeles léku á alls oddi og náðu mest 24 stiga forystu. Allt gekk upp hjá Lakers og virtist Boston vera lið sem var að brotna niður. Ekki aðeins leikur liðsins, heldur og leikmenn sjálfir.

Miðherji Boston, Kendrick Perkins, meiddist á öxl fljótlega í seinni hálfleiknum og leikstjórnandinn Rajo Rondo lék lítið í leiknum vegna ökklameiðsla. Þrátt fyrir fjarveru þeirra og frábæran sóknarleik Lakers í fyrri hálfleiknum gáfust leikmenn Boston aldrei upp og sneru leiknum sér í hag í seinni hálfleik.

Yfirburðir Lakers voru algerir í fyrri hálfleiknum og staðan var 58:40 fyrir Lakers í hálfleik. Liðið hélt þessari forystu fyrsta hlutann af þriðja leikhlutanum og var staðan 68:48.

Þá var eins og allur máttur hefði verið tekinn úr leik Lakers og Boston smám saman gekk á lagið. Gestirnir jöfnuðu leikinn, 73:73, strax í upphafi fjórða leikhlutans eftir að hafa skorað 23 af 28 stigum leiksins á þessu tímabili. Eftir það var það bara spurning um hvaða lið hefði viljann til að vinna leikinn.

Það var fyrst og fremst breyttur varnarleikur Boston í seinni hálfleiknum sem skóp sigur liðsins. Paul Pierce, framherji Celtics, fór fram á það við Doc Rivers, þjálfara Celtics, í hálfleik að fá að gæta Kobe Bryant í seinni hálfleiknum, eftir að Ray Allen hafði haft það hlutverk í þeim fyrri. Bryant hafði aðeins þrjú stig í hálfleik (öll úr vítaskotum), en hann var með sex stoðsendingar og hafði stjórnað leik heimaliðsins mjög vel.

Pierce gerði Bryant erfitt fyrir og með bættum liðsvarnarleik var eins og allar þær sendingar sem opnað höfðu vörn Boston í fyrri hálfleiknum væru ekki til staðar lengur. Leikmenn Los Angeles fóru þá að gerast óþolinmóðir og byrjuðu að taka hvert þriggja stiga skotið af fætur öðru. Lakers hafði hitt úr sex af þrettán þriggja stiga skotum í fyrri hálfleiknum, en síðan geiguðu öll átta í þeim síðari.

Í sóknarleik Boston ákvað Rivers að setja fjóra skotmenn með Kevin Garnett og það „teygði" á vörn Lakers. Allt í einu opnuðust ákjósanleg skottækifæri og varamennirnir Eddie House og James Posey fóru að skora hverja körfuna af fætur annarri. Þeir kappar bættu upp fyrir fjarveru þeirra Perkins og Rondo með því að skora 29 stig samtals.

Á þessum kafla ákvað Garnett að færa sig nær körfunni í sókninni og hann setti nokkrar mikilvægar körfur í lokin. Það voru hinsvegar þeir Paul Pierce og Ray Allen sem skópu þennan sigur Boston. Allen gerði út um leikinn með sniðskoti framhjá Sasha Vujacic þegar 15 sekúndur voru eftir.

„Það var karfan sem gerði út um leikinn," sagði Rivers í leikslok. „Við höfðum sett um tálma með Garnett og Allen, en Ray veifaði Kevin í burt því honum fannst að hann gæti komist framhjá varnarmanninum. Þetta var frábær ákvörðun hjá honum að taka hinn varnarmanninn úr dæminu."

Allt virtist vera Lakers í hag í hálfleik. Liðið hafði yfirspilað Boston allan fyrri hálfleikinn, en bæði sóknar- og varnarleikur liðsins féll saman í þeim síðari. Í fyrsta leikhlutanum skoraði Lakers 35 stig, en aðeins 33 í seinni hálfleiknum! Enginn leikmaður gat tekið af skarið í lokin þegar á þurfti og ákvörðun þjálfarans Phil Jackson að halda þeim Derek Fisher og Lamar Odom á varamannabekknum á löngum kafla í lokaleikhlutanum þegar Boston tók yfir leikinn er óskiljanleg.

Varamenn Lakers, sem áttu að vera lykillinn að velgengni gegn Boston, hittu aðeins úr 5 af 21 skotum sínum og öllum átta sem þeir tóku í seinni hálfleiknum. Þar var „vélin" Sasha Vujacic vélvana og hitti aðeins úr einu af níu skotum sínum.

Phil Jackson neitaði að gefa leikseríuna upp á bátinn í leikslok. „Varnarleikur þeirra í seinni hálfleiknum var lykillinn að sigri þeirra. Kobe fékk litla hjálp frá samherjum sínum í sóknarleiknum og Boston tók frumkvæðið í leiknum. Þessi leiksería er hinsvegar alls ekki búin enn."

Eftir töp í fimm af sex leikjum liðanna í vetur er erfitt að sjá Lakers snúa þessu dæmi við. Ég hef meiri trú á að það verði Boston sem vinnur fimmta leik lokaúrslitanna á morgun og vinni þar með sinn sautjánda meistaratitil.

Doc Rivers þjálfari Boston segir sínum mönnum til.
Doc Rivers þjálfari Boston segir sínum mönnum til. Reuters
Paul Pierce brýst framhjá Kobe Bryant.
Paul Pierce brýst framhjá Kobe Bryant. Reuters
Paul Pierce og Ray Allen fagna sigri Boston.
Paul Pierce og Ray Allen fagna sigri Boston. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka