Íslenska karlalandsliðinu í körfuknattleik hefur verið boðið til Litháen í júlí til að leika tvo leiki gegn hinu öfluga landsliði heimamanna sem býr sig undir keppni á Ólympíuleikunum í Peking.
Litháar verða með sitt sterkasta lið, nema hvað Zydrunas Ilgauskas, leikmaður Cleveland Cavaliers í NBA-deildinni, missir af leikjunum vegna meiðsla. Leikið er í Vilnius 13. og 15. júlí en auk þess mun íslenska landsliðið æfa í Litháen við mjög góðar aðstæður.
Í frétt á vef Körfuknattleikssambands Íslands segir að ferðin sé liður í frekara samstarfi landanna en Litháar hafi lýst yfir áhuga á að aðstoða íslenskan körfubolta með ýmsum hætti í framtíðinni.