Knicks setti met í fyrri hálfleiknum

Átök í Houston í nótt þar sem Shane Battier hjá …
Átök í Houston í nótt þar sem Shane Battier hjá Houston og Manu Ginobili hjá San Antonio eigast við með tilþrifum. Reuters

New York Knicks setti í nótt met í NBA-deildinni í körfuknattleik þegar liðið skoraði 82 stig í fyrri hálfleik gegn Golden State Warriors. Staðan að honum loknum var 82:64 fyrir Knicks, sem síðan vann leikinn 138:125.

Chris Duhon setti félagsmet hjá Knicks með því að gefa 22 stoðsendingar í leiknum en fyrra metið, 21, var orðið 50 ára gamalt. Richie Guerin setti það árið 1958. David Lee setti persónulegt met, skoraði 37 stig og tók 21 frákast, og er fyrsti leikmaður félagsins í 14 ár til að fara yfir 30/20, en Patrick Ewing skoraði 36 og tók 21 frákast gegn Philadelphia árið 1994.

Mike D'Antoni þjálfari Knicks virtist þó ekki ánægður með framlag Lee því þegar hann heyrði tölur hans eftir leikinn sagði hann: "Lee hefði átt að skora 50 stig, það hefði verið eðlilegt að hann hefði skorað 50 og tekið 28 fráköst."

Boston Celtics náði að knýja fram sinn 16. sigur í 18 leikjum, 89:84 gegn Charlotte Bobcats á útivelli. Paul Pierce var Boston dýrmætur á lokakaflanum en hann skoraði mest fyrir meistarana, 19 stig, og þeir Kendrick Perkins og Ray Allen gerðu 15 hvor.

Houston lagði San Antonio, 103:84, í Texasslag. Varamaðurinn Luther Head fékk sjaldgæft tækiæri til að leysa Tracy McGrady af hólmi, vegna meiðsla stjörnunnar. Head nýtti það  vel og skoraði 21 stig. Houston var fyrsta liðið í 12 leikjum til að ná að skora 100 stig gegn San Antonio en á þeim bænum var Tim Duncan stigahæstur með 17 stig.

Úrslitin í nótt:

Charlotte - Boston 84:89
Orlando - Indiana 110:96
Washington - Atlanta 98:102
New York - Golden State 138:125
Memphis - Oklahoma 103:111
Minnesota - Denver 97:106
Houston - San Antonio 103:84
Milwaukee - Cleveland 85:97
Utah - New Jersey 88:105
Sacramento - Dallas 78:101
LA Clippers - Miami 97:96

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert