Stjarnan og Breiðablik áttust við í Iceland Express deild karla í kvöld í Garðabæ þar sem að Nemanja Sovic fór á kostum í 91:87-sigri Breiðabliks. Sovic skoraði 41 stig og tók að auki 17 fráköst en Stjarnan var með 10 stig forskot í hálfleik, 45:35.
Fannar Helgason var stigahæstur í liði Stjörnunnar með 21 stig og 9 fráköst.
87:91 Breiðablik vaknaði heldur betur til lífsins í 4. leikhluta. Halldór Halldórsson kom Blikum í 90:86 þegar um 30 sekúndur voru eftir með þriggja stiga körfu.
68:65 Blikar sóttu í veðrið í þriðja leikhluta og aðeins munaði 3 stigum á liðunum. Nemanja Sovic hefur skorað 32 stig og tekið 14 fráköst fyrir Breiðablik. Svæðisvörn Breiðabliks virkaði vel í þriðja leikhluta og áttu Stjörnumenn fá svör við þeirri vörn.
45:35 Fyrri hálfleik er lokið. Stjarnan komst í 35:21 en Blikar sóttu í sig veðrið undir lok fyrri hálfleiks. Nemanja Sovic hefur skorað rúmlega helming stiga Breiðabliks en hann er með 20 stig. Í liði heimamanna er Fannar Helgason með 13 stig.
27:19 Stjarnan byrjaði mun betur og komst í 23:11. Justin Shouse og Kjartan Kjartansson skoruðu 7 stig hvor í 1. leikhluta fyrir Stjörnuna. Nemanja Sovic er allt í öllu í sóknarleik Blika og hefur hann skorað 11 stig.