Kevin McHale tekur við Minnesota

Kevin McHale.
Kevin McHale. Reuters

Randy Wittman var sagt upp störfum í dag hjá NBA-liðinu Minnesota Timberwolves og er hann fjórði þjálfarinn á þessari leiktíð sem missir starfið. Kevin McHale tekur við starfinu en hann hefur starfað við hliða framkvæmdastjóra liðsins á undanförnum árum og lætur hann af því embætti.

Minnesota hefur tapað 15 leikjum og unnið 4 það sem af er tímabilinu en liðið hefur tapað síðustu fimm leikjum með 17 stiga mun að meðaltali. Wittman tók við liðinu í janúar árið 2007 þegar Dwane Casey var sagt upp störfum. Frá þeim tíma hefur liðið tapað 105 leikjum og aðeins unnið 38.

Kevin McHale er einn þekktasti leikmaður Boston Celtics fyrr og síðar. Hann lék með „gullaldarliði#“ Boston þar sem að Larry Bird fór fremstur í flokki.

P.J. Carlesimo (Oklahoma City), Eddie Jordan (Washington) og Sam Mitchell (Toronto) hafa allir misst vinnuna á þessari leiktíð.

McHale hefur áður tekið við liði Minnesota eftir þjálfaraskipti. Hann stýrði liðinu eftir að Flip Saunders var sagt upp störfum keppnistímabilið 2004-2005 og undir hans stjórn vann liðið 19 leiki en tapaði 12. McHale hefur verið í stjórnunarstarfi hjá Minnesota frá árinu 1995.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert