Stan Kroenke framkvæmdastjóri NBA-liðsins Denver Nuggets hefur á undanförnum mánuðum gert ýmsar breytingar á leikmannahóp liðsins og virðast þær breytingar hafa skilað sér. Í gær sendi Denver bakvörðinn Chucky Atkins til Oklahoma Thunder og fékk Denver miðherjann Johan Petro í staðinn auk valréttar í 2. umferð háskólavalsins í júní.
Atkins er eflaust ekki sáttur við niðurstöðuna þar sem að Oklahoma er lang slakasta liðið í deildinni en Oklahoma hefur unnið 5 leiki á tímabilinu en tapað 30.
Fyrir tveimur mánuðum tók Kroenke þá ákvörðun í samráði við George Karl þjálfara liðsins að senda aðalstjörnu liðsins, Allen Iverson, til Detroit Pistons í skiptum fyrir leikstjórnandann Chauncey Billups. Denver hefur ekki leikið betur í marga áratugi og telja forsvarsmenn liðsins að Johan Petro geti reynst liðinu í dýrmætur í úrslitakeppninni.
Fyrir þremur dögum sendi Denver miðherjann Cheikh Samb til LA Clippers í skiptum fyrir valrétt í 2. umferð í háskólavalinu í sumar. LA Clippers fékk Hassan Adams frá Toronto Raptors í skiptum fyrir valrétt en Clippers hefur tapað átta leikjum í röð en helstu stjörnur liðsins eiga við meiðsli að stríð og má þar nefna Baron Davis, Chris Kaman og Zach Randolph.
Shaun Livingston mun ekki leika fleiri leiki með Miami Heat á leiktíðinni en hann fór frá Miami í gær til Memphis Grizzlies í skiptum fyrir valrétt í 2. umferð árið 2012. Livingston var valinn 4. í röðinni í háskólavalinu árið 2004 af LA Clippers en hann slasaðist illa á hné í febrúar árið 2007 þar sem hann sleit liðbönd í hné og hnéskelin fór úr skorðum.