KR og Grindavík, tvö efstu liðin í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, mætast í undanúrslitum bikarkeppninnar um aðra helgi en dregið var til þeirra í dag, bæði í karla- og kvennaflokki.
Liðin hafa haft talsverða yfirburði í deildinni í vetur og KR vann viðureign þeirra naumlega.
Hin tvö liðin sem mætast í undanúrslitum eru Stjarnan og Njarðvík og Teitur Örlygsson fær því sitt gamla félag aftur í heimsókn í Garðabæinn.
Í bikarkeppni kvenna dróst Keflavík gegn Val og Skallagrímur fær KR í heimsókn í Borgarnes en lið Skallagríms leikur í 1. deild.
Leikirnir fara fram dagana 24. og 25. janúar, bæði í karla- og kvennaflokki.