Shouse tryggði Stjörnunni sigur á ÍR

Frá viðureign ÍR og Stjörnunnar.
Frá viðureign ÍR og Stjörnunnar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Stjarnan sigraði ÍR, 74:71, í æispennandi leik í Iceland Express deildinni í körfuknattleik í Ásgarði í kvöld og tryggði Justin Shouse sigur Garðabæjarliðsins með þriggja stiga körfu sjö sekúndum fyrir leikslok.

ÍR-ingar sem lentu 20 stigum undir í þriðja leikhluta náðu að jafna metin hálfri mínútu fyrir leikslok en Shouse var hetja Stjörnunnar. Jovan Zdravevski skoraði 23 stig fyrir Stjörnuna og Justin Shouse kom næstur með 21 stig. Hjá ÍR var Hreggviður Magnússon stigahæstur með 23 stig og Steinar Arason skoraði 14.

Tölfræði leiksins.

Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu:

1. leikhluti:

Heimamenn hafa byrjað vel og hafa náð góðum tökum á leiknum. Staðan eftir 8 mínútna leik er orðin, 21:7.

Fyrsta leikhluta er lokið og hefur Stjarnan yfir, 22:13. Jovan Zdravevski er stigahæstur Stjörnumanna með 10 stig og Justin Shouse hefur skorað 8. Hjá ÍR-ingum sem hafa verið afleitir í sókninni er Davíð Þór Fritzson stigahæstur með 3 stig.

2. leikhluti:

Tímaklukkan er að gera mönnum lífið leitt og í annað sinn þarf að gera hlé á leiknum þar sem klukkan hefur bilað.

ÍR-ingar mættu ákveðnir til leiks í öðrum leikhluta og náðu að minnka muninn niður í fjögur stig og leikur þeirra lagaðist til muna. Garðbæingar hafa hins vegar haft góð tök á leiknum og eru átta stigum yfir í leikhléi, 41:33. Jovan Zdravevski er stigahæstur í liði Stjörnunnar með 16 stig og næstur kemur Justin Shouse með 11. Hjá ÍR-ingum hefur Hreggviður Magnússon skorað 12 og Steinar Arason 8.

3. leikhluti:

Stjörnumenn skoruðu 7 fyrstu stigin og náðu mest 20 stiga forskoti, 57:37, en ÍR-ingar neita að gefast upp og náðu að laga stöðuna áður en leikhlutinn var allur.  Staðan er, 60:48. Jovan Zdravevski er með 23 stig fyrir Stjörnuna og Shouse 15 en hjá ÍR eru Hreggviður Magnússon og Steinar Arason með 14 stig hvor.

4. leikhluti:

ÍR-ingar söxuðu jafnt og þétt á forskot heimamanna. Leikurinn var æsispennandi en ÍR náði að jafna, 71:71 undir lokin en Stjörnumenn náðu að knýja fram sigur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert