Logi Gunnarsson var stigahæstur hjá Njarðvík með 34 stig gegn Grindavík í leik liðanna í Iceland Express deild karla í körfuknattleik. Stigin 34 dugðu þó ekki til, því Grindavík fór með sigur af hólmi 113:85. Logi setti þó upp sýningu í fyrsta leikhluta þar sem hann setti 25 stig, þar af 21 stig úr þriggja stiga skotum.
„Þetta gekk vel hjá mér í byrjun og við náðum að halda í við þá fyrsta leikhlutann. Síðan sigldu þeir einfaldlega bara fram úr okkur. Við höfum ekki náð að stilla okkar lið alveg saman ennþá. Hópurinn milli leikja hjá okkur er breytilegur, auk þess sem hann er þunnur og mikið af ungum efnilegum leikmönnum að stíga sín fyrstu skref. Þeir gera mistök, sem er viðbúið þegar menn eru að spila sína fyrstu leiki í meistaraflokki. Hins vegar megum við reyndu leikmennirnir líka alveg sýna meiri leiðtogahæfileika,“ sagði Logi Gunnarsson eftir tapið í Grindavík í kvöld.
Það var einkennandi hjá Njarðvík í kvöld að þrátt fyrir að liðið væri mörgum stigum undir voru leikmenn ekkert að pirra sig á því eða láta mótlætið fara í taugarnar á sér. „Nei, það er meðvitað hjá okkur. Við förum að sjálfsögðu í alla leiki til að vinna þá, en ef það gengur illa þá höfum við það að leiðarljósi að vera samt jákvæðir og sýna ungu leikmönnunum að það þýðir ekkert að svekkja sig og hengja haus, heldur halda áfram. Maður verður að hafa gaman að þessu. Ég hef svo sannarlega gaman að þessu og sé ekki eftir því að hafa snúið heim til Njarðvíkur úr atvinnumennsku fyrir þetta tímabil,“ sagði Logi við mbl.is.