NBA: Sigrar hjá Boston og Lakers

Pau Gasol skorar fyrir LA Lakers gegn Cleveland í nótt.
Pau Gasol skorar fyrir LA Lakers gegn Cleveland í nótt. Reuters

Meistarar Boston og Los Angeles Lakers fögnuðu sigrum í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt. Boston burstaði Phoenix Suns, 104:87, og Lakers fór létt með Cleveland, 105:88.

Boston hafði mikla yfirburði gegn Phoenix en staðan í leikhléi var, 64:34. Rajon Rondo skoraði 23 stig fyrir Boston og Rayn Allen 20 en hjá Phoenix var Shaquille O'Neal stigahæstur með 16 stig og tók 11 fráköst en stigahæsti leikmaður liðsins í vetur, Amare Stoudemire, skoraði aðeins 3 stig.

Pau Gasol skoraði 22 stig fyrir Lakers og Kobe Bryant 20 þegar liðið skellti Cleveland. Bryant átti 12 stoðsendingar og tók 11 fráköst en skotnýting hans var ekkert til að hrópa húrra fyrir en hann hitti aðeins úr 9 af 22 skotum sínum. LeBron James var atkvæðamestur hjá Cleveland með 23 stig.

Þjóðverjinn Dirk Nowitzki tryggði Dallas sigur með flautukörfu þegar liðið bar sigurorð af Philadelphia, 95:93. Nowitzki skoraði 24 stig í leiknum og var stigahæstur sinna manna. Lou Williams var atkvæðamestur hjá Philadelphia með 25 stig.

Úrslitin í nótt:

Philadelphia - Dallas  93:95
New York - Chicago   102:98
Houston - Denver      115:113
Charlotte - San Antonio 84:86
Atlanta - Toronto  87:84
LA Clippers - Minnesota  86:94
New Orleans - Indiana  103:100
Golden State - Washington 119:98
Memphis - Detroit 79:87
Boston - Phoenix 104:87
Portland - Milwaukee 102:85
LA Lakers - Cleveland  105:88

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert