LeBron James var liði Cleveland Cavaliers enn og aftur dýrmætur í nótt þegar hann tryggði því útisigur á Golden State Warriors, 106:105, í NBA-deildinni í körfuknattleik, með því að skora glæsilega 3ja stiga körfu á síðustu sekúndu leiksins.
Leikur liðanna var gífurlega jafn og spennandi og forystan skipti 27 sinnum um hendur í leiknum, þar af 10 sinnum í fjórða leikhluta. James var í miklum ham í leiknum því hann gerði 32 stig, tók 9 fráköst, átti 8 stoðsendingar, auk þess að stela boltanum þrisvar og verja tvö skot.
Starfsmenn leiksins þurftu að skoða síðusta skot hans í leiknum af skjá áður en þeir úrskurðuðu um að hann hefði skotið áður en lokaflautið gall og karfan væri gild.
Stephen Jackson átti líka mjög góðan leik fyrir Golden State en hann skoraði 24 stig, átti 8 stoðsendingar og tók 8 fráköst, en hann skoraði framhjá James þegar 6 sekúndur voru eftir af leiknum og virtist hafa tryggt sínu liði sigurinn.
Úrslitin í nótt:
Charlotte - Phoenix 98:76
Detroit - Dallas 91:112
Indiana - Houston 107:102
Atlanta - Milwaukee 117:87
New York - Memphis 108:88
Minnesota - New Orleans 116:108
Chicago - Toronto 94:114
San Antonio - New Jersey 94:91
Golden State - Cleveland 105:106
LA Clippers - Oklahoma City 107:104