Breiðablik vann ÍR 93:88 í Iceland Express deild karla í körfuknattleik í Seljaskólanum í kvöld í miklum spennuleik. Blikar því komnir með 14 stig en ÍR áfram með 12. Fylgst var með gangi mála á mbl.is
88:93 Lokasekúndurnar voru æsispennandi, staðan var 88:89 og Blikar klúðruðu flottu skoti. 19,5 sekúndur eftir og dæmdur ruðningur á Eirík Önundarson - strangur dómur. Blikar skoruðu úr tveimur vítaskotum og þegar 4,1 seúnda var eftir tók Hreggviður þriggja stiga skot til að jafna en hitti ekki. Dæmd villa og hann fékk þrjú skot sem hann hitti ekki úr. ÍR braut því næst á Nemanja Sovic er 2,5 sekúndur voru eftir og hann hitti úr báðum, 88:93 og sigur.
Fjórar mínútur eru nú eftir og staðan jöfn, 81:81.
73:76 Eftir að Blikar komust í 69:58 girtu heimamenn sig í brók og fóru að leika eins og lið en einstaklingshyggjan hafði verið of áberandi hjá þeim. Þeim tókst að minnka muninn hægt og rólega og eru komnir vel inn í leikinn á ný.
49:48 Kominn hálfleikur og höfðu Blikar undirtökin lengst af í öðrum leikhluta en Hreggviður Magnússon setti niður þriggja stiga skot rétt í lokin og kom ÍR yfir. Litlu munaði að upp úr syði er staðan var 37:40 en þá áttust þeir Sveinbjörn Claessen og Hjalti Vilhjálmsson við og skallaði Sá fyrrnefndi þann síðarnefnda en dómararnir dæmdu óíþróttamannlega villu á þá báða og þar við sat, en Sveinbjörn heppinn að fá að halda áfram. Eiríkur er með 17 stig fyrir ÍR og hjá Blikum er Rúnar með 11 líkt og Nemanja Sovic.
22:23 Það fór eins og búast mátti við, hér í Seljaskóla er spennandi leikur þar sem ekkert er gefið eftir, enda mikið í húfi. Allt í járnum í fyrsta leikhluta þar sem Blikar náðu forystunni undir lok hans. Eiríkur Önundarson með 10 stig fyrirÍR og Rúnar Ingi Erlingsson með 10 fyrir Blika.