LeBron James skoraði 52 stig fyrir Cleveland Cavaliers í 107:102 sigri liðsins gegn New York Knicks í Madison Square Garden í NBA-deildinni í nótt. Þetta er hæsta stigaskor James í vetur og náði hann þrefaldri tvennu í 21. sinn á ferlinum. Jamaes og Michael Jordan eru einu leikmennirnir sem hafa náð því að skora 50 stig eða meira í „Garðinum“ oftar en einu sinni.
Kobe Bryant leikmaður LA Lakers setti met fyrir tveimur dögum þegar hann skoraði 61 stig gegn New York Knicks í Madison Square Garden og það er greinilegt að varnarleikur Knicks er ekki upp á marga fiska. James skoraði 20 stig í fyrsta leikhluta en hann hvíldi mikið í fjórða leikhluta vegna vöðvakrampa.
„Ég hélt að það væri ekki hægt að ná þrefaldri tvennu og skora 50 stig í leiðinni. En það gerðist,“ sagði James en hann gaf 11 stoðsendingar og tók 10 fráköst. Hann er fyrsti leikmaðurinn frá árinu 1975 sem nær slíkum árangri og skorar jafnframt 50 stig en sá síðasti sem gerði slíkt var Kareem Abdul-Jabbar.
Chris Bosh leikmaður Toronto Raptors meiddist á hné í 115:107-tapleik gegn LA Lakers á heimavelli.
Toronto – LA Lakers 107:115
Kobe Bryant skoraði 36 stig fyrir Lakers og Pau Gasol skoraði 31 stig í fjórða sigri Lakers í röð.
Dallas – Portland 104:99
Josh Howard skoraði 23 stig fyrir Dallas, Jason Kidd komst í fjórða sæti yfir flesta stoðsendingar í NBA-deildinni.
Orlando – LA Clippers 126:96
Anthony Johnson skoraði 26 stig fyrir Orlando og er það stigamet hjá honum á leiktíðinni. Hann fyllti skarðið sem Jameer Nelson skildi eftir sig en hann er meiddur.
Washington – New Jersey 88:115
Devin Harris skoraði 26 stig fyrir New Jersey.
New Orleans – Chicago 93:107
Derrick Rose skoraði 21 stig fyrir Chicago og Ben Gordon var með 19 stig. Þetta er fjórði tapleikur New Orleans í röð.
Oklahoma – Denver 113:114
Carmelo Anthony skoraði 32 stig fyrir Denver og hann tryggði liðinu sigur 5,3 sekúndum fyrir leikslok.
Detroit – Miami 93:90
Rodney Stuckey skoraði hitt úr tveimur stökkskotum undir lok leiksins og tryggði Chicago sigurinn en Stuckey skoraði 18 stig.
Minnesota – Atlanta 86:94
Marvin Williams skoraði 23 stig og tók 10 fráköst. Josh Smith skoraði 19 stig fyrir Atlanta og Mike Bibby var með 24 stig og 7 stoðsendingar.
Memphis – Houston 104:93
O.J. Mayo skoraði 32 stig fyrir Memphis og Rudy Gay bætti við 18 stigum og tók að auki 9 fráköst.
Golden State – Phoenix 124:112
Stephen Jackson náði þrefaldri tvennu hjá Golden State í fyrsta sinn á ferlinum. Hann skoraði 30 stig, tók 11 fráköst og gaf 10 stoðsendingar.