Marbury farinn frá Knicks

Stephon Marbury
Stephon Marbury AP

Vandræðagemlingurinn og leikstjórnandinn Stephon Marbury hefur fengið sig lausan frá New York Knicks í bandaríska körfuboltanum, en hann hefur átt í heitarlegum deildum við þjálfarann, félagið og raunar alla sem koma nálægt.

Marbury var með mjög fínan samning hjá Knicks og átti að fá um 21 milljón dollara á þessu ári, 2,3 milljarðar króna eða svo. Hversu mikið Knicks þurfti að borga til að losna við kappann er ekki vitað, en hann hefur ekkert leikið með liðinu í vetur. Þjálfarinn hafði hann ekki inn í myndinni í upphafi, en vildi nota hann þegar menn meiddust og annað en þá neitaði Marbury að spila.

Deilurnar þróuðustu og versnuðu og enduðu með því að fyrir nokkru síðan var honum bannaður aðgangur að allri aðstöðu félagsins og þurfti meira að segja að borga sig inn á leiki þess ef hann hafði áhuga á að horfa á „félaga“ sína.

Ekki er vitað hvort eitthvert félag tekur áhættuna af að fá hann í sínar raðir. Mikið hefur verið talað um Boston en hugsanlega taka menn þar á bæ ekki áhættuna á að góður liðsandi breytist til hins verra með komu hans. Ef eitthvert lið vill fá hann þarf það að gerast á næstu dögum ætli hann að leika með viðkomandi liði í úrslitakeppninni, því þá þarf hann að ganga til liðs við félagið fyrir 1. mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert