Breiðablik hafði betur gegn Tindastólií miklum baráttuleik í loka umferð Iceland Express deild karla í körfuknattleik í Smáranum í kvöld, 84:81 eftir dramatískar lokamínútur. Þór frá Akureyri féll í 1. deild eftir 108:94 tap liðsins gegn KR.
Önnur úrslit: Stjarnan - FSu 72:78, Keflavík-Skallagrímur 123:77, ÍR - Grindavík 89:98, Snæfell - Njarðvík 96:80. Átta liða úrslitin hefjast helgina 14. og 15. mars.
Liðin sem mætast:
(1.) KR - Breiðablik (8.)
(2.) Grindavík - ÍR (7.)
(3.) Snæfell - Stjarnan (6.)
(4) Keflavík - Njarðvík (5.)
Það lið sem fyrr vinnur 2 leiki kemst í undanúrslit.
Rúnar Ingi Erlingsson setti niður tvö vítaskot fyrir Blika þegar 4 sekúndur voru eftir af leiknum. Þá var Breiðablik undir með einu stigi, þannig að með því að hitta úr báðum vítaskotunum tryggði hann nýliðum Blika sigurinn. Blikar fengu svo tvö víti til viðbótar þegar innan við sekúnda var eftir og hittu úr báðum skotunum.
Leikurinn var hreinn úrslitaleikur um það hvort liðið endaði í 8. sæti, sem er síðasta sætið í deildinni sem gefur þátttökurétt í úrslitakeppni Íslandsmótsins. Er þar með ljóst að það verður Breiðablik sem mætir deildarmeisturum KR í 8 liða úrslitum úrslitakeppni Íslandsmótsins.
Nemanja Sovic var stigahæstur í liði Breiðabliks með 35 stig en atkvæðamestir hjá Tindastóli voru Svavar Atli Birgisson með 25 stig og Ísak Einarsson með 20 stig.
Þá er hægt að skoða tölfræðina úr leiknum með því að smella hér.
76:77 - Þegar tæp ein og hálf mínúta eru eftir af leiknum hefur Tindastóll nú yfir 77:76, fyrsta sinn síðan undir loka þriðja leikhluta sem Tindastóll hefur forskotið. Það stefnir í gríðarlega spennandi lokakafla í Smáranum.
63:56 - Blikar komu til síðari hálfleiks sem nýir menn, auk þess sem áhorfendur fóru að láta í sér heyra og hvetja Breiðablik áfram. Tókst heimamönnum með mikilli seiglu að breyta stöðunni úr 53:56 í 63:56 og leikurinn hin fínasta skemmtun. Nú er bara spurning hvort liðið hefur meira bensín eftir á tanknum.
40:48 - Lukkan hefur ekki verið nógu hliðholl Blikum þegar kemur að því að hitta ofan í körfuna, samanborið við gestina frá Sauðárkróki. Tindastóll hefur stjórnað leiknum og þegar fyrri hálfleik er lokið hefur liðið átta stiga forystu á Blika. Þorsteinn Gunnlaugsson í liði Breiðabliks meiddist í öðrum leikhluta og er með aðra höndina í fatla eftir riskingar á vellinum. Það stefnir í spennandi síðari hálfleik en staðan er nú 40:48, þar sem Nemenja Sovic hefur verið atkvæðamestur í liði Breiðabliks með 19 stig og Ísak Sigurjón Einarsson hefur gert 18 stig fyrir Tindastól.
24:27 - Gestirnir frá Sauðárkróki voru ívið sterkari í fyrsta leikhlutanum og hafa haft forystuna frá fyrstu mínútu. Reyndar tók það liðin hátt í eina og hálfa mínútu að skora fyrstu stig leiksins en eftir það hafa liðin ekki átt í miklum vandræðum með að hitta ofan í hringinn. Tindastóll virtist ætla að sigla framúr Blikum um miðjan leikhlutann, en þá spýttu heimamenn í lófana og sáu til þess að aðeins munar þremur stigum á liðunum að loknum fyrsta fjórðungi leiksins.