Bikarmeistarar KR unnu Íslandsmeistaralið Keflavíkur, 78:77, í hnífjöfnum og æsispennandi fyrstu viðureign liðanna í undanúrslitum Iceland Express-deildar kvenna í körfuknattleik í Keflavík í kvöld. Helga Einarsdóttir skoraði sigurstig KR þegar fjórar sekúndur voru til leiksloka. TaKesa Watson reyndi að tryggja Keflavíkur sigur á síðustu sekúndunni en skot hennar geigaði.
Leikurinn í Keflavík í kvöld var jafn og spennandi frá fyrstu mínútu. Keflavíkurliðið var eins tveggja stiga forskot í hálfleik, 43:41. KR var síðan yfir að loknum þriðja leikhluta, 65:63.
Liðin eigast við á nýjan leik á heimavelli KR á laugardaginn.
Bryndís Guðmundsdóttir skoraði 17 stig fyrir Keflavík og var stigahæst. Watson kom næst með 16 stig. Hjá KR var Hildur Sigurðardóttir atkvæðamest með 29 stig. Margrét Kara Sturludóttir gerði 20 stig.
Hægt er skoða tölfræði frá leiknum með því að smella hér.