Stjarnan knúði fram oddaleik gegn Snæfelli

Jovan Zdravevski skorar fyrir Stjörnuna í leiknum í kvöld.
Jovan Zdravevski skorar fyrir Stjörnuna í leiknum í kvöld. mbl.is/Golli

Stjarnan knúði í kvöld fram oddaleik gegn Snæfelli í átta liða úrslitum Iceland Express deildar karla í körfuknattleik þegar liðin mættust í Ásgarði í Garðabæ. Staðan er 1:1 í rimmu liðanna og þurfa liðin að mætast í Stykkishólmi í þriðja sinn til þess að útkljá sín mál. Stjarnan sigraði nokkuð örugglega í leiknum í kvöld 99:79 eftir að hafa verið yfir í hálfleik 45:42. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Stigahæstir hjá Stjörnunni:

Justin Shouse 28 stig

Zdravevski 25 stig

Stigahæstir hjá Snæfelli:

Jón Ólafur Jónsson 18

Hlynur Bæringsson 17

40. LEIK LOKIÐ. Stjarnan sigraði 99:79 og jafnaði 1:1 í rimmu liðanna.

38. Staðan er 87:66. Fannar Helgason virðist vera illa meiddur og hefur líklega snúið sig á ökkla. Váleg tíðindi fyrir Stjörnuna ef hann missir af oddaleiknum. Sigurður Þorvaldsson er einnig farinn af velli hjá Snæfelli eftir að hafa fengið högg á andlitið.

37. Garðbæingar eru á góðri leið með að tryggja sér oddaleik í Hólminum. Staðan er 84:66. Meiri munur hefur ekki verið á liðunum í kvöld.

36. Staðan er 79:62. Zdravevski var að skora þriggja stiga körfu og var það líklega síðasti naglinn í kistu Hólmara. Zdravevsk er búinn að skora 20 stig í leiknum.

35. Staðan er 76:62 fyrir Stjörnuna. Subasic hefur verið útilokaður frá frekari þáttöku í leiknum eftir að hafa fengið sína fimmtu villu. Hjá Stjörnunni er Guðjón Lárusson með fjórar villur.

34. Garðbæingum hafa verið mislagðar hendur í síðustu sóknarlotum sínum en Hólmurum hefur ekki tekist að nýta sér það nægilega vel. Staðan er 72:60.

32. Stjörnumenn hafa byrjað síðasta leikhlutann af krafti og eru komnir með fimmtán stiga forskot 72:57. Sóknarleikur Hólmara er ekki nægilega beittur og verða þeir að laga hann ætli þeir að hleypa spennu í leikinn. Sem dæmi er Sigurður Þorvaldsson aðeins búinn að skora tvö stig í leiknum. 

30. Fyrir síðasta leikhlutann er Stjarnan með gott forskot 66:55. Shouse og Jovan Zdravevski settu báðir niður þriggja stiga körfur undir lok þriðja leikhluta. Subasic er kominn með fjórar villur en engin er í villuvandræðum hjá Stjörnunni.

27. Stjarnan hefur náð tíu stiga forskoti í fyrsta skipti í leiknum 60:50.

26. Staðan er 56:48 fyrir Stjörnuna. Slobodan Subasic hjá Snæfelli er kominn með þrjár villur.

23. Garðbæingar hafa skorað fyrstu sex stigin í síðari hálfleik og eru því yfir 51:42.

20. Stjarnan er yfir þegar flautað hefur verið til hálfleiks 45:42. Fyrri hálfleikur var fjörugur og útlit fyrir spennandi leik í síðari hálfleik.  Justin Shouse er að reynast sínum fyrrum samherjum í Snæfelli erfiður og er búinn að skora 18 stig. Hlynur Bæringsson er með 9 stig hjá Snæfell og hefur gengið vasklega fram í fráköstunum að venju, er með 11 slík.

18. Justin Shouse er kominn í stuð sem veit á gott fyrir Garðbæinga. Shouse var að setja niður þriggja stiga körfu og er kominn með 15 stig í leiknum.  Stjarnan er yfir 42:39.

15. Hólmarar eru með frumkvæðið í leiknum þessa stundina en forskot þeirra er aðeins tvö stig 35:33. Leikmaður þeirra Magni Hafsteinsson er þó kominn í villuvandræði og nú þegar kominn með þrjár villur.

13. Annar leikhluti byrjar fjörlega og hraðinn í leiknum er talsverður. Stjörnumenn eru aftur komnir í gang og hafa endurheimt forystuna. Staðan er 30:29.

10. Eftir fyrsta leikhluta er allt í járnum í Ásgarði. Staðan er 24:20 fyrir Snæfell. Hlynur Bæringsson, spilandi þjálfari Snæfells, skoraði ævintýralega flautukörfu rétt áður en leiktíminn rann út í fyrsta leikhluta.

8. Snæfell hefur náð frumkvæðinu og eru komnir yfir 19:18.

6. Gestirnir úr Stykkishólmi eru smám saman að ná áttum eftir slaka byrjun og hafa minnkað muninn niður í 13:10.

3. Heimamenn byrja leikinn með látum og eru strax komnir yfir 11:2. Flestar körfur þeirra hafa komið eftir hraðaupphlaup.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka