Allt í sóma í Oklahoma

Carlos Boozer hjá Utah fer framhjá Luis Scola, Argentínumanni í …
Carlos Boozer hjá Utah fer framhjá Luis Scola, Argentínumanni í liði Houston, í leik liðanna í nótt. Reuters

Los Angeles Lakers var ekki í vandræðum með að innbyrða annan sigur í jafnmörgum leikjum í sjö leikja ferðalagi sínu um suður- og austurhluta Bandaríkjanna sem nú stendur yfir. Lakers sótti Oklahoma City Thunder heim í nótt og vann á þægilegan hátt, 107:89, og hvíldi allt byrjunarlið sitt síðustu átta mínútur leiksins.

Kobe Bryant var stigahæstur hjá Lakers með 19 stig og kom þó ekkert við sögu í fjórða leikhluta. Lamar Odom skoraði 18 stig og Spánverjinn öflugi Pau Gasol skoraði 14 stig, tók 14 fráköst og átti 7 stoðsendingar fyrir Lakers sem er nú einum leik á eftir Cleveland í baráttunni um efsta sætið í NBA-deildinni í heild.

Kevin Durant skoraði 24 stig fyrir hið unga lið Oklahoma sem komst aldrei nær Lakers en 17 stig í seinni hálfleiknum.

San Antonio Spurs vann Golden State í spennuleik, 107:106. Roger Mason skoraði sigurkörfuna þegar 23 sekúndur voru eftir og boltinn dansaði á körfuhring San Antonio í lokin eftir skot frá Monta Ellis. Tony Parker gerði 30 stig fyrir San Antonio, Mason 24 og Tim Duncan 21. Ellis gerði 27 stig fyrir Golden State.

Chicago Bulls vann Detroit Pistons, 99:91, og Utah Jazz lagði Houston Rockets, 99:86.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert