Annar leikur Snæfells og Grindavíkur í undanúrslitum Iceland Express-deildar karla í körfuknattleik fer fram í Stykkishólmi í kvöld klukkan 19.15, en Grindvíkingar unnu fyrsta leikinn sannfærandi. Páll Axel Vilbergsson, einn besti leikmaður Grindavíkur í vetur, missti af fyrri leiknum vegna meiðsla og er ekki enn orðinn leikfær.
„Nei ég verð ekki með í kvöld. En ég sit bara og bíð eftir að mér batni. Þetta er beinmar undir hnéskelinni og þetta geta verið ansi leiðinleg meiðsli, ég veit um menn sem hafa misst út marga mánuði vegna þessa. Þó held ég að mitt tilfelli sé ekki eins slæmt, því ekki man ég eftir því að hafa fengið slæmt högg á hnéð. Hinsvegar dugar ekki að sprauta hnéð og því verð ég bara að bíða og sjá,“ sagði Páll Axel í dag.
En félagar Páls í Grindavík virðast þó ekki sakna hans mikið, því þeir unnu Snæfell með 28 stiga mun í síðasta leik.
„Þetta er svo gott lið, þeir þjappa sig bara saman og aðrir stíga upp í staðinn, við erum með marga leikmenn sem geta gert það. Breiddin minnkar kannski aðeins. En ég vona bara að ég missi ekki af fleiri leikjum, maður er ekki búinn að rembast í allan vetur til þess eins að missa af mesta fjörinu! Því ef við komumst í gegnum Snæfell, og KR vinnur Keflavík, þá er nú eflaust betra fyrir Grindavík að hafa mig en ekki sko,“ sagði Páll fullur hógværðar.
Ljóst er að Grindavík þarf á Páli að halda mæti þeir KR í úrslitum, líkt og flest bendir til. Því Páll gerði 22.2 stig að meðaltali í leik í vetur, tók 6.4 fráköst og gaf 2.4 stoðsendingar í leik.
Það sem af er úrslitakeppninni er tölfræðin 24.5 stig, sjö fráköst og ein stoðsending í leik.