LeBron James skoraði 24 stig fyrir Cleveland Cavaliers í 102:74 sigri liðsins gegn Dallas Mavericks í NBA-deildinni í körfuknattleik í gær. Þetta var 12. sigur liðsins í röð, sem er met, og liðið bætti félagsmetið með 60. sigrinum á þessari leiktíð. Á heimavelli hefur liðið unnið 35 leiki og tapað aðeins einum.
Cleveland - Dallas 102:74
Atlanta
– LA Lakers 86:76
Mike Bibby skoraði 21 stig fyrir Atlanta gegn Lakers sem er í harðri baráttu
gegn Cleveland um að ná besta árangrinum í NBA-deildinni fyrir úrslitakeppnina.
Lakers er með 58 sigra og 15 tapleiki.
Detroit – Philadelphia 101:97
Tayshaun Prince skoraði 21 stig fyrir Detroit og Allen Iverson lék með liðinu á
ný eftir meiðsli. Samuel Dalembert leikmaður Philadelphia meiddist í fyrsta
leikhluta og kom ekki meira við sögu.
Sacramento – Phoenix 126:118
Það bendir allt til þess að Phoenix missi af úrslitakeppninni. Liðið er fjórum
sigurleikjum á eftir Dallas sem er í 8. sæti Vesturdeildar.
Boston – Oklahoma 103:84
Paul Pierce skoraði 27 stig fyrir Boston og Eddie House skoraði 14 af alls 16
stigum sínum fyrir meistaraliðið í síðari hálfleik. Þetta var sjötti sigur
Boston í síðustu sjö leikjum þrátt fyrir að Kevin Garnett sé fyrir utan liðið
vegna meiðsla.
New Orleans – San Antonio 90:86
Chris Paul skoraði 26 stig fyrir New Orleans og hann skoraði úr tveimur vítaskotum
7 sekúndum fyrir leikslok. David West bætti við 23 stigum og tók að auki 16
fráköst.
Toronto – Chicago 134:129
Chris Bosh skoraði 31 stig fyrir Toronto sem sigraði Chicago í framlengdum
leik. Chicago mistókst að vinna fimmta leikinn í röð en það hefur ekki tekist
frá árinu 2006.
Indiana – Washington 124:115
Danny Granger skoraði 31 stig fyrir Indiana og nýliðinn Brandon Rush bætti við
29 stigum og tók 10 fráköst.