Þrettándi sigur Cleveland í röð

Andrei Kirilenko leikmaður Utah heldur fast um boltann eftir að …
Andrei Kirilenko leikmaður Utah heldur fast um boltann eftir að hafa tekið frákast gegn Portland í nótt. Carlos Boozer, félagi hans, og Greg Oden hjá Portland misstu báðir af boltanum. Reuters

Cleveland Cavaliers, með hinn magnaða LeBron James í aðalhlutverki, hélt áfram sigurgöngu sinni í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt og vann þrettánda leik sinn í röð, 79:73 gegn Detroit Pistons.

Það er ekki langt síðan Cleveland vann aðeins 17 leiki á heilu tímabili í NBA en nú hefur liðið unnið 16 leiki á einum mánuði, sigrað í 36 af 37 heimaleikjum sínum í vetur, og kemur greinilega ógnarsterkt inní úrslitakeppnina síðar í þessum mánuði.

„Þetta er búið að vera magnað, við höfum verið gífurlega einbeittir eftir Stjörnuleikinn og mánuðurinn hefur verið ótrúlegur," sagði James eftir leikinn í nótt. Hann skoraði 25 stig og tók 12 fráköst í leiknum. Richard Hamilton skoraði mest fyrir Detroit, 13 stig.

Los Angeles Lakers tapaði óvænt í Charlotte, 94:84, og sýndi þreytumerki á þrettán daga ferðalagi sínu um austurhluta Bandaríkjanna. Annan leikinn í röð náði liðið ekki 100 stigum. Kobe Bryant skoraði 25 stig en var með mjög slaka skotnýtingu.

Úrslitin í nótt:

Charlotte - LA Lakers 94:84
Cleveland - Detroit 79:73
Indiana - Chicago 107:105
Philadelphia - Atlanta 98:85
Minnesota - Dallas 88:108
San Antonio - Oklahoma City 95:96
Denver - New York 111:104
Portland - Utah 125:104
Sacramento - New Orleans 110:111

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert