Benedikt: „Bradford stjórnar þessari sýningu“

Benedikt Guðmundsson þjálfari KR.
Benedikt Guðmundsson þjálfari KR. mbl.is/Hag

„Við vorum einfaldlega ömurlegir í þessum leik. Það vantaði allt.  Stemninguna, gleðina, samheldnina og allt sem einkennir KR. Nick Bradford stjórnaði þessum leik frá A-Ö. Hann rífur kjaft við alla og við látum hann fara inn í hausinn á okkur. Hann stjórnar þessari sýningu.  Ég gæti haldið langa ræðu um sálfræðihernaðinn sem við töpuðum í kvöld og við verðum að breyta mörgu í okkar undirbúningi fyrir leikinn á laugardaginn,"  sagði Benedikt Guðmundsson þjálfari KR eftir 107:94 ósigur liðsins gegn Grindavík í þriðja úrslitaleiknum um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik karla. 

Grindavík getur tryggt sér titilinn á laugardaginn í fjórða leiknum og segir Benedikt að leikmenn KR fái nú tíma til þess að hugsa sinn gang. „Menn þurfa að spyrja sjálfan sig margra spurninga og svara þeim sjálfir. Við vorum aldrei með í þessum leik og ég hef séð þetta gerast áður. Í Laugardalshöllinni gegn Stjörnunni í úrslitum Subwaybikarsins. Það er eins og við trúum því að okkur hafi verið afhentur Íslandsmeistaratitill í upphafi tímabilsins og við séum hræddir við að tapa honum. Við höfum ekki unnið neinn titil og við þurfum að sækja titilinn,"  sagði Benedikt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert