KR lagði Grindavík 94:83 í fjórða leiknum í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn í úrvalsdeild karla í körfuknattleik. Grindavík gat með sigri tryggt sér titilinn en staðan er nú jöfn, 2:2, og eigast liðin við í oddaleik á mánudaginn á heimavelli KR. Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki verður meistari. Fylgst var með gangi mála á mbl.is.
Oddaleikur í úrslitum í karlaflokki hefur ekki farið fram frá árinu 1999 þegar Keflavík vann Njarðvík, 3:2.
4. leikhluta lokið, 94:83, fyrir KR:
9. mín: Staðan er 90:83 fyrir KR, 56 sekúndur eftir.
8. mín: KR tekur leikhlé. Staðan er 86:79 fyrir KR og 2:23 eftir af leiknum. Allt útlit fyrir oddaleik á mánudaginn í DHL-höllinni.
6. mín: Þorleifur Ólafsson skorar þriggja stiga körfu „spjaldið og ofaní“. Hann ætlaði örugglega ekki að gera það og Brenton Birmingham tróð með tilþrifum í næstu sókn Grindavíkur. Staðan er 81:78 fyrir KR og útlit fyrir æsilegar lokamínútur.
5. mín: Fannar Ólafsson er í miklu stuði en hann hefur skorað 20 stig og tekið 11 fráköst í liði KR. Staðan er 81:73 fyrir KR.
4. mín: KR gefur ekkert eftir. Staðan er 75:71 fyrir KR. Grindvíkingar hafa ekki nýtt sóknirnar og í varnarleiknum hafa þeir gefið eftir undir körfunni.
2. mín: KR er yfir, 73:70.
1. mín: Það er gríðarleg stemning á áhorfendapöllunum og Grindvíkingar eru háværir þessa stundina. Staðan er 70:67.
3. leikhluta er lokið, 68:65, fyrir Grindavík:
10. mín: Grindavík er með þriggja stiga forskot fyrir lokaleikhlutann. 68:65. Páll Axel er stigahæstur í liði Grindavíkur með 17 stig en Jason er með 19 stig í liði KR. Hann er með fjórar villur og Benedikt þjálfari KR geymir hann þar til að líða fer á fjórða leikhluta.
9. mín: Arnar Freyr Jónsson skorar þriggja stiga körfu og kemur Grindavík í 67:65. Það varð allt vitlaust á áhorfendapöllunum.
8. mín: Staðan er 65:64 fyrir KR. Páll Axel tók rispu og skoraði 5 stig í röð. Mikill kraftur í honum og hefur fyrirliðinn skorað 17 stig í leiknum. KR tekur leikhlé.
6. mín: Staðan er 62:55 fyrir KR. Jason var að fá sína fjórðu villu í liði KR. Fannar Ólafsson fer á kostum í sókninni hjá KR og hann hefur skorað 13 stig og tekið 7 fráköst. Bradford hefur alls ekki náð sér á strik í sókninni hjá Grindavík en hann hefur skorað 8 stig og er hann með slaka skotnýtingu.
4. mín: Jason fær sína þriðju villu. Staan er 58:53 fyrir KR.
3. mín: Staðan er 58:51 fyrir KR. Jason er með 19 stig fyrir KR.
1. mín: KR skorar fyrstu 4 stigin og kemst í 51:44.
2. leikhluta er lokið, 47:44, fyrir KR:
10. mín: Jason skoraði síðustu stig fyrri hálfleiks fyrir KR. Staðan er 47:44 fyrir KR. Grindvíkingar voru ósáttir við að ekki voru dæmd skref á Jason og höfðu þeir nokkuð til síns máls. Páll Kristinsson er stigahæstur í liði Grindavíkur með 9 stig en Jason er með 15 stig í liði KR.
8. mín: Það gengur ekkert í sókninni hjá Nick Bradford. Hann er með 4 stig. Jason er kraftmikill í liði KR og hefur skorað 12 stig. Staðan er 42:39 fyrir KR.
7. mín: KR er með 6 stiga forskot, 39:33. Grindavík tekur leikhlé.Helgi Jónas Guðfinnson er stigahæstur í lið Grindavíkur með 8 stig en hann var að fá sína þriðju villu og fór af leikvelli.
5. mín: Staðan er 34:33 og það er allt á suðupunkti í Grindavík. Öllum dómum mótmælt og ekkert gefið eftir í vörninni hjá báðum liðum.
3. mín: Staðan er 30:26 fyrir KR. Það er allt annar bragur á KR-liðinu miðað við tapleikinn á fimmtudaginn.
1. leikhluta er lokið, 22:19, fyrir KR:
10. mín: Fyrsta leikhluta er lokið. KR er með þriggja stiga forskot, 22:19. Jason Dourisseau er stigahæstur í liði KR með 10 stig en Brenton Birmingham er með 7 stig fyrir Grindavík.
8. mín: Páll Axel Vilbergsson hefur skorað 5 stig í röð fyrir Grindavík. Staðan er 20:17 fyrir KR.
5. mín: Jason Dourisseau leikur vörnina gegn Nick Bradford af mikilli hörku. Bradford skoraði 47 stig í síðasta leik en hann hefur ekki komist á blað það sem af er. Staðan er 10:10.
4. mín: Kristinn Óskarsson dómari leiksins er ekki sáttur við hvernig Nick Bradford er að „ræða“ við KR-ingana. Hann óskar eftir því að Bradford hætti þessu.
3. mín: Staðan er 8:6 fyrir Grindavík. KR-ingar sækja að körfunni og Fannar Ólafsson fær boltann nánast í hverri einustu sókn.
1. mín: Helgi Jónas Guðfinnsson skorar fyrstu stig leiksins fyrir Grindavík. Fannar Ólafsson svaraði fyrir KR. Staðan er 2:2.
15:56: Forráðamenn KKÍ eru mættir á svæðið og er Íslandsmeistarabikarinn á svæðinu. Grindavík varð meistari í fyrsta og eina sinn til þessa árið 1996. Nafn félagsins er ekki skráð á bikarinn. Þar stendur UMFN og hafa þau mistök fengið að standa frá þeim tíma. KR hefur fagnað meistaratitlinum í 10 skipti. Síðast árið 2007.
15:55: Dómarar leiksins eru þeir Kristinn Óskarsson og Björgvin Rúnarsson. Erlingur Snær Erlingsson er eftirlitsdómari.
15:47: Ein breyting er á leikmannahópi KR. Hjalti Kristinsson kemur inn í liðið í stað Guðmundar Magnússonar sem kom ekkert við sögu í síðasta leik.
15:45: Það er „troðfullt“ í íþróttahúsinu í Grindavík og áhorfendur eru vel með á nótunum. Hreimur og Jónsi sjá um að ná stemningunni upp.
Grindavík lagði KR að velli í þriðja leiknum sem fram fór í DHL-höll KR-inga, 107:94. Þar skoraði Nick Bradford 47 stig fyrir Grindavík.
Forsala á leikinn hefur gengið vel og á vef Grindavíkur er sagt frá því að uppselt verði á leikinn í dag.