Segir félögin ekki nenna til Eyja

Piltarnir í 7. flokki ÍBV sem fá ekki að spila …
Piltarnir í 7. flokki ÍBV sem fá ekki að spila leikina í mótinu. ibv.is/karfa

Björn Einarsson, körfuboltaþjálfari hjá ÍBV, er óánægður með hegðan nokkurra körfuboltafélaga, sem hætt hafa við þátttöku í fjölliðamóti hjá 7. flokki drengja, sem fara átti fram um síðustu helgi. Sakar hann félögin um leti. Þetta kemur fram á fréttavefnum sudurlandid.is.

Mótið, sem fara átti fram í síðasta mánuði, en var þá frestað vegna forfalla liðanna. Samkvæmt frétt sudurlandid.is tóku liðin sig síðan saman og neituðu að koma á mótið og ákvað Körfuknattleikssambandið í framhaldinu að láta leikina niður falla.

„Um helgina VERÐUR EKKERT MÓT hér í Eyjum. Hin liðin MÆTA EKKI - ástæðurnar eru engar í raun og veru - eins og sagt var í fréttinni hér fyrir neðan að þá nenna liðin einfaldlega ekki til Eyja og er þetta fyrir neðan allar hellur!  Strákarnir okkar borga æfingagjöld eins og hin liðin en munurinn á okkur og hinum liðunum er að þau geta núna spilað æfingaleiki við hvort annað og bara hvenær sem er enda stutt að fara en hvað með okkur? Ekki erum við að fara út í Bjarnarey að spila við lið þar? Það er með ólíkindum hvað þetta gerist oft!“ er haft eftir Birni á sudurlandid.is.

Liðin sem um ræðir eru Njarðvík, Keflavík, Breiðablik og Fjölnir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert