Útisigrar hjá Houston og Dallas

Ron Artest bakvörður Houston sækir að körfu Portland en Nicolas …
Ron Artest bakvörður Houston sækir að körfu Portland en Nicolas Batum er til varnar. Reuters

Houston Rockets og Dallas Mavericks fóru vel af stað í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfuknattleik í nótt og sigruðu hærra skrifaða mótherja sína, Portland og San Antonio Spurs, á útivöllum. Houston fór illa með Portland, 108:81, og Dallas lagði Spurs, 105:97.

Kínverski risinn Yao Ming var í miklum ham í fyrri hálfleik og skoraði þá 24 stig fyrir Houston. Hann hafði síðan hægt um sig í seinni hálfleik, skaut ekki á körfuna og sat á bekknum allan síðasta leikhlutann.

„Fyrstu mínúturnar geta gefið tóninn fyrir leikinn og fyrsti leikurinn getur gefið tóninn fyrir einvígið í heild, og það var þessvegna afar mikilvægt að fara vel af stað," sagði Ming við fréttamenn eftir leikinn.

Aaron Brooks var stigahæstur hjá Houston með 27 stig en Brandon Roy skoraði 21 stig fyrir Portland sem teflir fram ungu lið og er komið í úrslitakeppnina í fyrsta skipti í sex ár. Gífurleg stemmning var í borginni fyrir leikinn en vonbrigðin með frammistöðu liðsins voru að sama skapi mikil og fjöldi áhorfenda yfirgaf höllina í lok þriðja leikhluta.

Dallas vann sinn fyrsta útisigur í úrslitakeppninni í þrjú ár og það gegn einum helstu fjandmönnum sínum í San Antonio, 105:97.  Josh Howard skoraði 25 stig fyrir Dallas en Tim Duncan gerði 27 stig fyrir San Antonio.

„Þetta var erfitt, San Antonio er sennilega erfiðasti útivöllurinn í deildinni, ásamt Cleveland, og það verður ekkert léttara á mánudagskvöldið," sagði Jason Terry, leikmaður Dallas, en þá mætast liðin aftur á sama stað.

Fjóra sigra þarf í 1. umferðinni til að komast áfram þannig að einvígin eru rétt að byrja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert