Boston og San Antonio jöfnuðu metin

Rajon Rondo hjá Boston brýst framhjá Ben Gordon hjá Chicago …
Rajon Rondo hjá Boston brýst framhjá Ben Gordon hjá Chicago í leiknum í nótt. Reuters

Meistarar Boston Celtics jöfnuðu metin í einvíginu við Chicago Bulls í 1:1 með naumum sigri á heimavelli í nótt, 118:115, í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfuknattleik. Sama gerði San Antonio sem tók Dallas Mavericks í karphúsið á heimavelli, 105:84, og þar er staðan líka 1:1.

Ray Allen var hetja Boston í nótt en hann skoraði sigurkörfuna með 3ja stiga skoti, 118:115, þegar 2 sekúndur voru eftir af leiknum. Allen skoraði 28 stig og kom Boston yfir erfiðustu hjallana en útlitið var slæmt hjá meisturunum undir lokin þegar staðan var 104:109 fyrir gestina frá Chicago.

Hjá Chicago var Ben Gordon illviðráðanlegur en hann skoraði 42 stig og jafnaði metin í 115:115 þegar 12 sekúndur voru eftir af leiknum.

Nú eru framundan tveir leikir í Chicago en Paul Pierce hjá Boston kvaðst engu kvíða. „Við erum með fullt sjálfstraust því við teljum okkur ekki vera byrjaða að spila af okkar eðlilegu getu ennþá. Við eigum mikið inni," sagði Pierce.

San Antonio bætti fyrir tap gegn Dallas á heimavelli í fyrsta leik liðanna og var ekki í teljandi vandræðum eftir að hafa komist í 30:19 í fyrsta leikhluta. Munurinn var 22 stig í lok þriðja leikhluta.

Tony Parker átti stórleik með Spurs og skoraði 38 stig, þar af 19 stig í fyrsta leikhluta, jafnmörg og allt lið Dallas. Jason Terry gerði 16 stig fyrir Dallas og þeir Dirk Nowitzki og Jason Kidd 14 hvor.

„Það er ekki slæmt að vinna annan tveggja leikja í San Antonio, en þegar maður vinnur fyrsta leikinn vill maður fylgja því eftir og er ekki sáttur við að staðan sé 1:1," sagði Dirk Nowitzki, þýski risinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert