Utah Jazz náði að leggja hið öfluga lið Los Angeles Lakers að velli, 88:86, í þriðja leik liðanna í úrslitakeppni NBA í körfuknattleik í nótt. Staðan er 2:1 fyrir Lakers. Meistarar Boston burstuðu Chicago á útivelli, 107:86 og komust yfir, 2:1, og Dallas komst í 2:1 gegn San Antonio með því að sigra á heimavelli, 88:67.
Deron Williams skoraði sigurkörfu Utah gegn Lakers, 88:86, þegar 2,2 sekúndur voru til leiksloka. Leikurinn var tvísýnn allan tímann og liðin yfir til skiptis, og leikur beggja afar sveiflukenndur. Utah var yfir í hálfleik, 43:39, í leiknum í Salt Lake City, höfuðstað Utah-fylkis, en Lakers var yfir eftir þriðja leikhluta, 68:60.
Carlos Boozer átti stórleik með Utah og jafnaði félagsmet í úrslitakeppni með því að taka 22 fráköst en hann skoraði auk þess 23 stig. Hetjan Williams skoraði 13 stig og átti 9 stoðsendingar. Hjá Lakers var Lamar Odom með 21 stig og 14 fráköst, Paul Gasol var með 20 stig og 9 fráköst en Kobe Bryant var með 18 stig og hitti skelfilega illa, aðeins úr 5 skotum af 24 utan af velli.
Boston sneri einvíginu gegn Chicago sér í hag á ný eftir að hafa lent í vandræðum á heimavelli og tapað þar fyrsta leiknum. Í nótt áttu heimamenn í Chicago aldrei möguleika, staðan var 59:37 fyrir meistarana í hálfleik og 83:58 eftir þriðja leikhluta.
Paul Pierce var í aðalhlutverki hjá Boston og skoraði 24 stig og Rajon Rando skoraði 20. „Við vitum hvernig við viljum spila og í kvöld lékum við nákvæmlega þannig," sagði Pierce eftir leikinn.
Englendingurinn Ben Gordon skoraði 15 stig fyrir Chicago og John Salmons 14. Hvorki Gordon né Derrick Rose náðu sér á strik eftir að hafa báðir farið hamförum í upphafi einvígisins í Boston.
Dallas fór nokkuð létt með nágranna sína í San Antonio og var með þægilega forystu í hálfleik, 46:30. Eftir þriðja leikhluta voru úrslitin nánast ráðin, staðan 75:42, en San Antonio náði aðeins að klóra í bakkann á lokakaflanum. Strax um miðjan þriðja leikhluta voru allir byrjunarliðsmenn liðsins sestir á bekkinn og Gregg Popovich þjálfari búinn að játa sig sigraðan.
„Þetta var frábær leikur, við börðumst hver fyrir annan," sagði Dirk Nowitzki, þýska tröllið hjá Dallas, en lið hans sýndi frábæran varnarleik í nótt. Nowitzki skoraði 20 stig og Josh Howard 17 fyrir Dallas en Tony Parker var stigahæstur hjá San Antonio með aðeins 12 stig.