Cleveland Cavaliers er með vænlega stöðu gegn Detroit Pistons í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í NBA. Cleveland vann Detroit á útivelli í nótt, 79:68, og er staðan 3:0 fyrir Cleveland en það lið sem fyrr vinnur fjóra leiki kemst áfram í aðra umferð Austurdeildarinnar.
Að venju fór mikið fyrir LeBron James í liði Cleveland en hann skoraði 25 stig, tók 11 fráköst og gaf 9 stoðsendingar. Pistons náði að jafna 58:58 í fjórða leikhluta en þá tók James til sinna ráða og skoraði 11 stig í fjórða leikhlutanum og Cleveland skoraði 18 stig gegn aðeins 2 stigum Pistons.
Thaddeus Young tryggði Philadelphia 76‘ers sigur gegn Orlando Magic með sniðskoti á síðustu sekúndum leiksins, 96:94. Philadelphia er 2:1 yfir í rimmunni og kemur það nokkuð á óvart þar sem liðið tapaði sex af síðustu sjö leikjunum í deildarkeppninni. Liðið hefur ekki komist í gegnum fyrstu umferð úrslitakeppninnar frá árinu 2001 þegar liðið fór alla leið í úrslit NBA.
Andre Iguodala var stigahæstur í liði 76‘ers með 29 stig en miðherjinn sterki Dwight Howard skoraði 34 stig fyrir Orlando sem var 17 stigum undir um tíma í leiknum.
Houston Rockets er með yfirhöndina gegn Portland Trailblazers eftir 86:83 sigur liðsins. Argentínumaðurinn Luis Scola var stighæstur í liði Houston með 19 stig og 9 fráköst. Staðan er 2:1 fyrir Houston.