Stórsigur Denver og Lakers komið áfram

Kobe Bryant.
Kobe Bryant. Reuters

Denver Nuggets vann stórsigur gegn New Orleans á útivelli í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í nótt og fáir áttu von á 58 stiga sigri Denver, 121:63.  Staðan er 3:1 fyrir Denver sem þarf einn sigur til viðbótar til þess að tryggja sér sigur í einvíginu. LA Lakers sigraði Utah Jazz 107:96 og er Utah þar með úr leik. Lakers mætir Portland eða Houston í 2. umferð. Það var einn leikur í Austurdeildinni. Atlanta Hawks lagði Miami Heat á útivelli 81:71 og er staðan jöfn 2:2.

New Orleans – Denver 63:121

Carmelo Anthony skoraði 26 stig í fyrstu þremur leikhlutunum en stuðningsmenn New Orleans höfðu flestir yfirgefið keppnishöllina eftir þriðja leikhluta þegar staðan var 89:50. Denver og Minneapolis Lakers deila meti yfir stærsta sigur í úrslitakeppninni frá upphafi en Minneapolis vann St. Louis Hawks 133:75 árið 1956.

George Karl þjálfari Denver Nuggets lét varnarmenn liðsins leika af miklum kraftigegn aðalstjörnu Nwe Orleans, Chris Paul, og það virkaði vel því hann skoraði aðeins 4 stig og gaf 6 stoðsendingar. Þetta var einn af lélegust leikjum hans á ferlinum. „Ég er viss um að Chris Paul er  meiddur. Hann var ólíkur sjálfum sér,“ sagði Karl í leikslok.

Miami – Atlanta 71:81

James Jones leikmaður Miami Heat skoraði 8 stig fyrir sitt lið á aðeins 11 sekúndum undir lok fyrri hálfleiks og mun hann örugglega ekki leika það eftir á næstunni. Skotbakvörðurinn skoraði þriggja stiga körfu þegar 2:26 mínútur voru eftir af 2. leikhluta, Solomon Jones braut á honum í leiðinni, og Jones skoraði úr vítaskotinu sem hann fékk að auki. Miami náði boltanum strax aftur og Jones skoraði úr þriggja stiga skot og Mike Bibby braut á honum í leiðinni. Jones skoraði úr vítaskotinu. Miami var um tíma 21 stigum undir gegn Atlanta í fyrri hálfleik en staðan var 46:42 í hálfleik.  

LA Lakers – Denver 107:96

Kobe Bryant skoraði 31 stig fyrir Lakers sem sendir Utah í sumarfrí.  Lama Odom skoraði 26 fyrir Lakers sem mætir Houston eða Portland í 2. umferð.  Paul Millsap var stigahæstur í liði Utah þrátt fyrir að hann hafi aðeins skorað 16 stig og Rússinn Andrei Kirilenko skoraði 14 stig líkt og Deron Williams.

Kobe Bryant sagði í leikslok að honum væri alveg sama hver andstæðingurinn yrði í næstu umferð. „Við erum tilbúnir að mæta hvaða liði sem er. Það verður næsta skref að fara yfir þá möguleika sem eru í stöðunni og hvaða áherslur verða í sókn og vörn í þeim leikjum.  Úrslitakeppnin er allt öðruvísi en deildarleikirnir. Við höfum meiri tíma til þess að fara yfir hlutina og okkur líður vel,“  sagði Bryant.

Chris Paul.
Chris Paul. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert