Fjórir leikir fóru fram í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfuknattleik. Dallas Mavericks sendi hið þaulreynda lið San Antonio Spurs í sumarfrí með 106:93 sigri á útivelli. Dallas vann einvígið 4:1. Meistaralið Boston Celtics sigraði Chicago Bulls naumlega eftir framlengingu, 106:104, og er staðan 3:2 fyrir Boston sem þarf einn sigur til viðbótar til þess að komast áfram. Portland vann Houston 88:77 og er staðan 3:2 fyrir Houston. Orlando sigraði Philadelphia 91:78 og er staðan 3:2 fyrir Orlando.
Boston - Chicago 106:104
Þetta er í þriðja sinn sem framlengt er í einvígi Boston og Chicago er það met í deildinni. Einu sinni þurfti að tvíframlengja til þess að knýja fram úrslit. Paul Pierce tryggði Boston sigur en hann skoraði úr þremur stökkskotum á lokakafla leiksins og þar af sigurkörfuna 3,4 sekúndum fyrir lok framlengingar.
„Ég gaf mér tíma og ég náði að búa til pláss á þeim stað sem mér líður best á þegar ég þarf að skjóta. Sem betur fer fór boltinn ofaní,“ sagði Pierce.
Orlando - Philadelphia 91:78
Orlando Magic getur tryggt sér sæti í 2. umferð úrslitakeppninnar með því að vinna Philadelphiu 76‘ers á útivelli. Dwight Howard fór á kostum í liði Orlando en hann skoraði 24 stig og tók að auki 24 fráköst sem er met hjá honum í úrslitakeppni. Rashard Lewis hrökk í gang í liði Orlando og skoraði hann 24 stig og Rafer Alston bætti við 14 stigum fyrir Magic. Andre Iguodala skoraði 26 stig fyrir Philadelphia og Andre Miller skoraði 17.
Courtney Lee leikmaður Orlando meiddist í fyrsta leikhluta og kom hann ekki meira við sögu í leiknum. Hann fékk mikið högg á andlitið frá liðsfélaga sínum, Dwight Howard, og er óljóst hve meiðsli hans eru alvarleg.
San Antonio - Dallas 93:106
Dirk Nowitzki skoraði 31 stig fyrir Dallas
Mavericks og er þetta í fyrsta sinn frá árinu 2006 að Dallas kemst í gegnum
fyrstu umferð Vesturdeildar. San Antonio Spurs hefur ekki farið svona snemma í
sumarfrí frá árinu 2000, ári eftir að liðið vann sinn fyrsta meistaratitil af
alls fjórum. San Antonio endaði í 3. sæti
Vesturdeildar en Dallas var í 6. sæti. Dallas mætir líklega Denver í næstu umferð en Denver er 3:1 yfir gegn New Orleans.
Tim Duncan skoraði 30 stig fyrir San Antonio og Tony Parker skoraði 26. Þeir reyndu að draga vagninn í þessu einvígi en það kom aldrei nein aðstoð frá liðsfélögum þeirra í stigaskorun liðsins. Manu Ginobili frá Argentínu lék ekkert með liðinu í úrslitakeppninni og var greinilegt að liðið gat ekki verið án hans.
Portland - Houston 88:77
Brandon Roy og LaMarcus Aldridge skoruðu báðir
25 stig fyrir Portland sem vann Houston 88:77. Houston þarf einn sigur til
viðbótar en staðan er 3:2 fyrir Houston. Portland hefur ekki komist í gegnum fyrstu
umferð úrslitakeppninnar frá árinu 1997. Luis Scola skoraði 21 stig fyrir Houston og Yao
Ming var með 15 stig og 12 stig.