Denver áfram og mætir Dallas

Chauncey Billups og Carmelo Anthony fagna í sigurleik Denver gegn …
Chauncey Billups og Carmelo Anthony fagna í sigurleik Denver gegn New Orleans í nótt. Reuters

Denver Nuggets tryggði sér í nótt sæti í 2. umferð úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfuknattleik með því að sigra New Orleans Hornets, 107:86, og samanlagt 4:1. Denver mætir Dallas. Atlanta Hawks náði forystunni í einvíginu við Miami Heat, 3:2, með sigri á heimavelli, 106:91.

Bæði Atlanta og Miami eru í vandræðum vegna meiðsla, hjá Atlanta er hópurinn orðinn þunnskipaður og hjá Miami er stigakóngur vetrarins, Dwyane Wade, í vandræðum með að komast í gegnum leikina vegna bakmeiðsla, auk þess sem hann fékk þungt höfuðhögg í leiknum í nótt.

Joe Johnson skoraði 25 stig fyrir Atlanta og Flip Murray 23 en Marvin Williams var ekki með vegna meiðsla og Al Horford haltraði af velli vegna ökklameiðsla. Wade skoraði 29 stig fyrir Miami en náði sér ekki á strik fyrr en seint í leiknum þegar forystu Atlanta varð ekki ógnað.

Í Denver var jafnræði með liðunum í fyrri hálfleik og staðan 49:49 að honum loknum. Heimamenn stungu síðan af í þriðja leikhluta, staðan var 80:66 að honum loknum og ljóst að leikmenn New Orleans voru á leið í sumarfríið.

Carmelo Anthony var í miklum ham hjá Denver og skoraði 34 stig. J.R. Smith skoraði 20 stig og Kenyon Martin 15. David West skoraði 24 stig fyrir New Orleans og James Posey 18.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert