Howard í leikbann vegna olnbogaskots

Dwight Howard.
Dwight Howard. Reuters

Dwight Howard, leikmaður Orlando Magic og besti varnarmaður NBA-deildarinnar í körfuknattleik, var í gær úrskurðaður í eins leiks bann vegna atviks sem átti sér stað í fimmta leiknum gegn Philadelphia 76‘ers í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Orlando er 3:2 yfir og getur tryggt sér sigur í einvíginu með því að vinna 76‘ers í sjötta leiknum sem fram fer í kvöld. Howard gaf Samuel Dalembert miðherja 76‘ers olnbogaskot sem dómarar leiksins sáu ekki  nógu vel en aganefnd NBA fór yfir atvikið á myndbandi og úrskurðaði Howard í leikbann.

Liðsfélagi Howard, bakvörðurinn Courtney Lee, verður ekki með í leiknum í kvöld vegna meiðsla sem má rekja til Howards. Lee fékk mikið högg á höfuðið í fimmta leiknum eftir að Howard hafði varið skot frá leikmanni 76‘ers og vinstri olnbogi Howards fór í höfuðið á Lee sem kom ekki meira við sögu í þeim leik.

Meiðsli Lee eru það alvarleg að það er óvíst að hann geti tekið þátt í fleiri leikjum í úrslitakeppninni.  Hann er byrjunarliðsmaður í liði Orlando og verða því tveir byrjunarliðsmenn fjarverandi gegn 76‘ers á útivelli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert