Miami Heat tók Atlanta Hawks í bakaríið í nótt og sigraði stórt, 98:72, í sjötta leik liðanna í fyrstu umferð úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfuknattleik. Þar með er staðan jöfn, 3:3, og þau mætast í oddaleik í Atlanta á sunnudagskvöldið.
„Þetta var nauðsynlegt, nú er það næsti leikur," sagði hinn snjalli Dwyane Wade eftir leikinn, einbeittur á svip og án fagnaðarláta. Hann skoraði 41 stig og lék Atlantaliðið grátt í leiknum. „Það er engin pressa á okkur, við erum litla liðið í þessu einvígi," sagði Wade.
Michael Beasley bætti við 22 stigum fyrir Miami og tók 15 fráköst. Hjá Atlanta var Mike Bibby atkvæðamestur með 20 stig, öll í fyrri hálfleik.
Sex leikir liðanna til þessa hafa aldrei endað með minna en tíu stiga mun á annan hvorn veginn. Atlanta hefur unnið sína leiki með 26, 10 og 15 stigum, Miami sína með 15, 29 og 26 stigum.