Boston vann oddaleikinn gegn Chicago

Paul Pierce fagnar sigri Boston á lokasekúndum leiksins í nótt.
Paul Pierce fagnar sigri Boston á lokasekúndum leiksins í nótt. Reuters

Meistarar Boston Celtics náðu að lokum að hrista af sér harðvítuga mótspyrnu Chicago Bulls í 1. umferð úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfuknattleik og unnu oddaleik liðanna í nótt, 109:99. Þar með vann Boston einvígið, 4:3, og mætir Orlando Magic í 2. umferðinni en fyrsti leikur liðanna er strax aðfaranótt þriðjudagsins.

Eftir sjö framlengingar í hinum sex viðureignunum var Boston með yfirhöndina allan tímann að þessu sinni. Chicago var þó inni í leiknum framá lokamínútur en eftir að Boston komst í 89:84 komust gestirnir ekki nær.

Ray Allen skoraði 23 stig fyrir Boston og Paul Pierce 20. Hjá Chicago var Ben Gordon með 33 stig, Derrick Rose 18 og Kirk Hinrich 16.

„Þetta var langt og erfitt einvígi, andlega eitt það allra erfiðasta sem ég hef tekið þátt í. En við stóðumst að lokum prófið, baráttan og sigurviljinn voru til staðar og við erum meistarar þar til einhver yfirbugar okkur," sagði Paul Pierce við fréttamenn eftir leikinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka