Meistarar Boston Celtics eru nú úr leik í úrslitakeppni NBA deildarinnar eftir frækna göngu undanfarin tvö ár. Eftir hreint ótrúlega göngu í úrslitakeppninni í fyrra þar sem Celtics þurfti að vinna tvær leikseríur í sjö leikjum og tvær í sex, og í ár þar sem liðið lenti í tveimur sjö-leikja seríum, tæmdist loks bensíntankurinn. Orlando Magic uppfyllti loks þær væntingar sem gerðar hafa verið til liðsins með góðum sigri í lokaleik undanúrslitum Austurdeildarinnar í Boston í gær, 101:82.
Tvö frækin lið léku lokaleik sinn á heimavelli í átta-liða úrslitum NBA deildarinnar í gær, en útkoman var ólík. Leiksería Boston og Orlando í Austurdeildinni var sérstaklega skemmtileg, rétt eins og leiksería Boston gegn Chicago Bulls í fyrstu umferðinni. Í fyrra náði Boston að komast á toppinn, þrátt fyrir að leika mun fleiri leiki en önnur lið, en í ár gekk það dæmi ekki upp, einkum vegna meiðsla mikilvægasta leikmanns liðsins.
Framherjinn Kevin Garnett meiddist á hné seint í deildarkeppninni í vor og þegar séð var að hann myndi ekki ná sér af þeim áður en að keppnistímabilið væri á enda, var augljóst að möguleikar Celtics á að verja titilinn voru litlir.
Eftir maraþonkeppnina gegn Chicago, var eins og leikmenn Celtics þyrftu á galdri að halda til að vinna leikina gegn spræknu Galdraliðinu sjálfu. Sú aðferð gekk loks ekki upp í sjöunda leik liðanna þar sem Orlando var ávallt í forystunni og í endann urðu leikmenn Boston að játa sig sigraða.
„Við héldum að við ættum enn tækifæri á að verja titilinn þrátt fyrir meiðsl Kevins, en við urðum bensínlausir í lokin, því miður," sagði Paul Pierce, framherji Celtics í leikslok. Ray Allen var stighæstur Boston með 23 stig, en Tyrkinn Hedo Turkoglu skoraði mest hjá Magic með 25 stig.
Sigurlaun Orlando er nú úrslitarimma Austurdeildarinnar gegn Cleveland Cavaliers, sem mun hafa fengið níu daga hvíld þegar liðin hefja keppni á miðvikudag. Skemmst er frá því að segja að Orlando hefur ekki sýnt nokkuð í úrslitakeppninni í ár sem gefur til kynna að liðið muni veita Cleveland mikla keppni í leikseríu liðanna. Stan Van Gundy, þjálfari Orlando, virðist gera sér góða grein fyrir því.
„Cleveland hefur leikið þrepi ofar en önnur lið það sem af er, þannig að við verðum að finna annan gír gegn þeim," sagði hann þegar hann var inntur eftir því hvort lið hans ætti nokkurn möguleika gegn Cleveland.
Van Gundy verður að sjálfsögðu að segja það, en ef Orlando vinnur einn leik í þessari leikseríu hafa þeir gert betur en ég spái. Cleveland virðist á hraðferð í lokaúrslitin og Orlando er eins og hvimleið fluga sem Cavaliers þarf að eiga við á þeirri leið.
Lakers loks áfram
Los Angeles Lakers gekk betur en Boston í sínum leik og tókst loks að losa sig við Houston Rockets í annarri umferð Vesturdeildarinnar eftir öruggan sigur, 89:70, í sjöunda leik liðanna hér í Staples Center.
Lakers-liðið hefur verið harðlega gagnrýnt af NBA sérfræðingum fyrir afleita frammistöðu gegn Rakettunum sem var með þrjá lykilmenn meidda. Phil Jackson lét gagnrýnina lítið á sig fá milli sjötta og sjöunda leikjanna. Hann benti á að fréttafólk vanmæti Houston. Jackson sagði að sínir menn myndu sína hvað í þeim byggi á heimavelli.
Jackson reyndist sannarlega sannspár. Lakers byrjaði með miklum látum, náði 17:4 forystu og eftir það var bara spurningin um hversu stór sigur Lakers yrði. Yfirburði Lakers voru algerir í þessum leik, en liðin skiptust á því að vinna stórsigra á sínum heimavöllum í síðustu fjórum leikjunum.
Pau Gasol var stighæstur hjá jöfnu liði Lakers með 21 stig, en hann var besti maður vallarins þegar á heildina er litið.
Kobe Bryant var inntur eftir því á blaðamannafundi hér í húsi eftir leik út af hverju Lakers liðið hefði leikið svo ójafnt í þessari leikseríu. „Ég held að við séum tvíhverfir (bipolar)," svaraði hann og hló.
Hvort kappinn hefur rétt fyrir sér eða ekki, þá leit allavega út fyrir að liðið ætti við sálfræðilegan vanda að eiga. Flestir bjuggust við öruggari sigri gegn Houston, sérstaklega eftir að Yao Ming brákaðist á fæti.
Næsta verkefni Lakers verðu úrslitaviðureign liðsins í Vestudeildinni gegn Denver Nuggets, sem hefst á morgun. Lakers vann þrjá af fjórum leikjum liðanna í vetur, en Denver hefur leikið geysivel undanfarið, sértaklega í varnarleiknum. Flestir sérfræðingar hafa nú gefist upp á Lakers-liðinu og spá Denver sigri í leikseríunni.
Eitt verður þó að hafa í huga í þessu dæmi. Leikur sumra liða passar stundum betur gegn einum andstæðingi en öðrum. Derek Fisher, bakvörður Lakers, var til dæmis rækilega rassskelltur af Aaron Brooks hjá Houston í leikseríu liðanna. Brooks er knár og geysilega fljótur leikmaður, en Fisher leikur mun betur gegn stærri bakvörðum eins og Chauncey Billups hjá Denver.
Eitt er víst í leikseríu liðanna. Leikmenn Lakers verða að mæta með bættu hugarfari gegn Denver en gegn Houston. Denver er mun sterkara lið sem spilar frábæran varnarleik og Carmelo Anthony er besti stigaskorarann í deildinni. Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki hér mun sennilega vinna þetta á endanum.
Það lítur ekki vel út fyrir Lakers samkvæmt spádómum sérfræðinganna, en þessi leiksería mun sennilega fara í sjö leiki. Ef svo fer, vinnur Lakers 4:3. Lakers liðið hefur Kobe Bryant!