Orlando skellti Cleveland á útivelli

Dwight Howard skorar fyrir Orlando með tilþrifum í leiknum í …
Dwight Howard skorar fyrir Orlando með tilþrifum í leiknum í Cleveland í nótt. Reuters

Orlando Magic gerði sér lítið fyrir og sigraði hið annars óstöðvandi lið Cleveland Cavaliers á útivelli, 107:106, í fyrstu viðureign liðanna í úrslitum Austurdeildar NBA í körfuknattleik í nótt.

Cleveland hafði unnið alla átta leiki sína í fyrstu tveimur umferðunum, lagt andstæðinga sína af miklu öryggi, 4:0. Það leit heldur ekki út fyrir annað en að Orlando yrði líka sópað til hliðar því LeBron James og félagar voru komnir í 33:19 eftir fyrsta leikhluta. Munurinn var svipaður í hálfleik, 63:48, Cleveland í hag.

Flórídaliðið lét hinsvegar heldur betur finna fyrir sér í þriðja leikhluta og hafði að honum loknum minnkað muninn í 82:78. Þegar 10 mínútur voru eftir náði Orlando forystunni í fyrsta skipti, 85:84. Leikurinn var síðan æsispennandi til loka. Rashard Lewis kom Orlando í 104:103 þegar hálf mínúta var eftir en James svaraði með körfu og vítaskoti, 106:104. Það var síðan Lewis sem tryggði Orlando sigurinn með 3ja stiga körfu, 107:106.

LeBron James skoraði 49 stig, átti 8 stoðsendingar og tók 6 fráköst, en varð að játa sig sigraðan. „Menn verða að spila allan tímann, ekki bara annan hálfleikinn. Þetta voru verðskulduð úrslit og eru bara góð fyrir okkur, við reiknuðum ekki með því að vinna hvern einasta leik," sagði James sem fékk krampa undir lokin og haltraði af velli í leikslok.

Dwight Howard skoraði 30 stig fyrir Orlando og Rashard Lewis 22. Hedo Turkoglu skoraði 15 stig og átti 14 stoðsendingar. „Þetta er mikivægur sigur og við héldum áfram og börðumst allan tímann. Við höfum alltaf trú á því að við gætum sigrað hérna," sagði Howard.

LA Lakers sigraði Denver Nuggets á heimavelli, 105:103, í fyrsta úrslitaleik liðanna í Vesturdeildinni í fyrrinótt og mætast aftur í nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert